Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2010: Nebosja Vidic

Körfubolti | 12.06.2010
Nebosja Vidic.  (Ljósm. H. Sigm)
Nebosja Vidic. (Ljósm. H. Sigm)
Nebosja er okkur vel kunnugur, eins og hefur komið fram áður hér á síðunni.  Þetta er hans önnur ferð til Ísafjarðar og tók hann þátt í búðunum í fyrra.  Hann þekkir elstu strákana úr KFÍ orðið nokkuð vel og hefur fengið nokkra innsýn í íslenskan körfuknattleik á undanförnum tveimur árum.  Nebosja er þjálfari sem við metum mikils og því var hann að sjálfsögðu tekinn örviðtali og spurður sömu spurninga og hinir starfsbræður hans.

"Í Serbíu er stundum sagt að þegar maður gerir eitthvað öðru sinni, heppnist það oft vel og sé ánægjulegt.  Það á eiginlega vel við um mig núna, ég hef notið Íslandsferðarinnar og heimsóknar hingað til Ísafjarðar og að hitta ykkur öll enn á ný.  Körfuboltabúðirnar hafa þróast í rétta átt og eru að vaxa að öllu leyti, rétt eins og búast mátti við.  Ég er stoltur að hafa fengið að setja mark mitt á búðirnar frá upphafi þeirra og að fá að fylgja þeim eftir.  Iðkendur körfuknattleiks eru mjög líkir ef ekki eins, sama hvar þig ber niður í heiminum.  Það kom mér nokkuð á óvart hversu margir krakkar hér búa yfir ríkulegum hæfileikum í körfuknattleik og sum hver eru þau, hvað það varðar svipuð því sem við þjálfarnir þekkjum best til dæmis í heimalandi mínu, Serbíu.  Þjálfun þeirra og vinnusemi iðkendanna sjálfra munu skilgreina árangur þeirra til framtíðar.  Ef allar aðstæður eru réttar eiga þau að geta "snert stjörnurnar".  Það er verkefni okkar að skapa grundvöll þess og sem bestar aðstæður."

Verkefnin eru greinilega stór og metnaðarfull.  KFÍ-síðan skilur Nebosja sem svo að hann hvetji okkur til enn meiri dáða og það er gott mál, við skulum hlusta á hann og gera enn betur.  Það má því lofa því að Körfuboltabúðirnar verða endurteknar að ári og verða bara öflugri.  KFÍ óskar Nebosja góðrar ferðar heim til Serbíu og góðs gengis í þjálfuninni.  Við vonumst til þess að hitta hann aftur sem fyrst. Deila