Tony Garbaletto reið á vaðið í morgun með fyrirlestur um vörn gegn "pick-and-roll" sóknarleik (Ball screen defence - phyllosophy & concepts). Þeir sem þekkja til Tony kom ekki á óvart hversu skipulega hann gengur til allra verka og sýndi hann það enn á ný í dag. Frábær yfirferð yfir helstu atriði og hvaða áherslur hann leggur á hjá sínum leikmönnum til þess að verjast þessu klassiska sóknarbragði.
Nebosja Vidic hélt áfram með yfirferð yfir stöðu og líkamsbeitingu, í gær var sóknarleikur á dagskránni en núna var komið að varnarstöðunni. Í mjög góðum fyrirlestri hans (90 mínútur af þéttpökkuðum fróðleik) sýndi hann hvernig varnarmaður kemur sóknarmanni úr jafnvægi og nær undirtökum í baráttunni í og við teiginn. Einnig var eftirtektarvert þegar hann fór yfir hvernig þróun hefur orðið í varnarstöðu og tók hann dæmi um hvernig efri hluti líkamans er nær láréttur í réttri stöðu í dag skv. hinum mæta JR Holden hjá CZKA Moskva.
Að þessum erindum loknum sköpuðust ágætis umræður, sem reyndar eins og hina dagana héldu áfram með hléum allan daginn fram á kvöld, enda ekki við öðru að búast þegar saman eru komnir menn sem hugsa um körfuknattleik jafnt í vöku sem og í svefni.
Deila