Körfuboltabúðir KFÍ 2011 hafa nú runnið sitt skeið á enda og vikan verið annasöm. Ekki síst hefur yfirþjálfari búðanna, Hrafn Kristjánsson haft í mörg horn að líta. Hann var gripinn rétt fyrir brottför og spurður um hvernig honum þætti hafa tekist til og hvað mætti gera betur næst? Einnig hvort hann hafi einhver sérstök skilaboð til þátttakenda?
Í heildina litið finnst mér búðirnar hafa tekist einstaklega vel og heyri ekki annað en að allir sem að komu séu sammála. Það sem skiptir alltaf mestu máli er að sjá að krakkarnir sýni áhuga, hafi gaman af og taki framförum í leik sínum. Í þetta skiptið lögðum við upp með sérstakar áherslur hvað varðar hreyfingar og grunntækni í frjálsum sóknarleik, sem var greinilega farið að skila sér í bættu samspili í leikjum undir lok búðanna.
Þá er það alltaf þannig að það má betur gera og við erum strax farin að sjá möguleika til breytinga sem munu skila sér með skilvirkari og skemmtilegri búðum á næsta ári. Þegar eru komnar fram ansi metnaðarfullar og skemmtilegar hugmyndir fyrir næsta ár sem verður gaman að fylgja eftir á næstu mánuðum. Vonandi getum við kynnt þær fljótlega.
Vil að endingu þakka öllum krökkunum kærlega fyrir góða samvinnu þessa vikuna, biðja þau um að hafa ráðleggingar þeirra Ægis Þórs og Tómasar Heiðars að leiðarljósi og stundi körfuboltann áfram af iðjusemi og þolinmæði. Geri þau það efast ég ekki um að þau mæti til leiks sterkari að ári.
KFÍ þakkar gömlum vini fyrir frábæra viku og gott framlag til búðanna. Óskum honum góðrar ferðar norður til Akureyrar.
Deila