Fréttir

Körfuboltabúðirnar komnar á fulla ferð

Körfubolti | 06.06.2019
Körfuboltabúðir Vestra 2019. Ljósmynd: Ásgeir Helgi Þrastarson
Körfuboltabúðir Vestra 2019. Ljósmynd: Ásgeir Helgi Þrastarson

Elleftu körfuboltabúðir Vestra standa nú yfir á Torfnesi á Ísafirði en búðirnar hófust á þriðjudagskvöld og lýkur með kvöldvöku á laugardagskvöld. Hátt í 130 iðkendur eru skráðir til leiks í stóru búðirnar en samhliða þeim er boðið upp á Grunnbúðir fyrir yngri iðkendur í Bolungarvík og eru nærri 40 iðkendur skráðir í þær.

Stóru búðirnar eru ætlaðar börnum í 5.-10. bekk en Grunnbúðirnar eru fyrir iðkendur í 1.-4. bekk. Flestir iðkendur utan Vestraiðkendanna gista á heimavist Menntaskólans á Ísafirði en aðrir gista víðsvegar um bæinn. Fjöldi foreldra og systkina eru með í för og oft verður þátttaka í Vestrabúðunum hluti af sumarfríi fjölskyldunnar.

Yfir 20 þjálfarar frá hinum ýmsu heimshornum taka þátt í búðunum en yfirþjálfari í ár líkt og síðustu ár er Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Íslandsmeistara KR. 

Búðirnar í ár eru nokkuð fámennari en í fyrra þegar öll aðsóknarmet voru slegin að búðunum. Í ár var ákveðið að fækka árgöngum um einn og því þurfa börn í 4. bekk að bíða í eitt ár áður en komið er í stóru búðirnar. Einnig stangast á við Vestrabúðirnar hinar árlegu Afreksbúðir KKÍ sem ætlaðar eru 14 ára iðkendum en búið er að tryggja að slíkt hendi ekki að ári.

Í gær heimsótti búðirnar Ásgeir Helgi Þrastarson, ljósmyndari á Ísafirði, og hann smellti af þessari skemmtilegu hópmynd.

Hægt er að fylgjast með fréttum af búðunum  og skoða ljósmyndir á facebook-síðunni Körfuboltabúðir Vestra.

Deila