Körfuboltabúðum KFÍ árið 2016 lauk síðastliðinn sunnudag, þann 5. júní. Þetta voru áttundu búðirnar sem KFÍ stendur fyrir og þær fjölmennustu til þessa en alls voru iðkenndur 145 talsins sem er nærri 50% aukning frá síðasta ári.
Búðirnar gengu einstaklega vel fyrir sig þrátt fyrir verulega aukið umfang. Iðkendurnir voru sjálfum sér og foreldrum sínum til mikils sóma jafnt innan vallar sem utan. Ekki má heldur gleyma vel heppnuðum Grunnbúðum, fyrir yngri krakka, en iðkenndur þar stóðu sig einnig með stakri prýði og bíða spenntir eftir að ná aldri til að komast í stóru búðirnar.
Þótt skipulag og umgjörð búðanna skipti miklu máli er innihaldið og körfuboltamenntunin það sem allt snýst um. Frábært teymi þjálfara skilaði góðu verki líkt og svo oft áður. Segja má að sérstaða búðan felist í einstaklega vel heppnaðri blöndu reynslumikilla innlendra þjálfara og þjálfara austan hafs og vestan. Ekki má heldur gleyma ungum og efnilegum þjálfurum sem taka þátt sem aðstoðarþjálfarar en ætla má að búðirnar séu ekki síður góður skóli fyrir þá.
Þetta eru síðustu KFÍ búðir sögunnar því á næsta ári munum nafn nýja íþróttafélagsins Vestra prýða búðirnar. Dagsetning þeirra búða liggur nú þegar fyrir. Þær fara fram dagana 30. maí-4. júní 2017. Það er því óhætt fyrir körfuboltakrakka og foreldra að taka þessar dagsetningar frá.
Við þökkum öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til að gera þessar áttundu búðir að þeim bestu til þessa; Þjálfarar, fyrirlesarar, ljósmyndarar, matráðar, vistarverðir, starfsmenn íþróttahússins, húsvörður MÍ og allir sjálfboðaliðarnir sem létu þetta ganga upp. Síðast en ekki síst þökkum við flottu styrktaraðilum okkar sem voru m.a.: Arna, Bakarinn, Hótel Ísafjörður, Heildsala Hafsteins, Íslandssaga, Klofningur, Penninn og Samkaup.
Bendum áhugasömum á fjölda mynda og upplýsinga á Facebook síðu búðanna.
Sjáumst að ári!
Deila