Á morgun, uppstigningardag, mun hópur elstu iðkenda Kkd. Vestra þreyta körfuboltamaraþon í íþróttahúsinu á Suðureyri og spila körfubolta samfellt í tólf klukkustundir, frá kl. 9-21. Efnt er til maraþonsins í fjáröflunarskyni fyrir hópferð í æfingabúðir í Amposta á Spáni í næsta mánuði, 23.-30. júní.
Undanfarna daga hafa krakkarnir gengið í hús á norðanverðum Vestfjörðum og safnað áheitum ásamt því að leita til fyrirtækja á svæðinu. Móttökur hafa verið afar góðar og takist krökkunum ætlunarverkið mun það létta mjög á ferðakostnaði þeirra. Boðið verður uppá rjúkandi heitar vöfflur og kaffi í íþróttahúsinu á Suðureyri á meðan á maraþoninu stendur og hvetjum við íbúa á svæðinu til að fá sér bíltúr og kíkja á þessa öflugu krakka.
Alls er 21 iðkandi frá Vestra á leið í búðirnar, jafnt strákar sem stelpur, frá Hólmavík og öllum þéttbýliskjörnum á norðanverðum Vestfjörðum að Flateyri frátalinni. Með í för verða einnig sjö foreldrar. Þetta er í fyrsta sinn í 10 ár sem farið er í skipulagða æfinga- eða keppnisferð á erlenda grundu með körfuboltakrakka af svæðinu en fyrir tíma Körfuboltabúða KFÍ og Vestra höfðu nokkrar slíkar ferðir verið farnar.
Búðirnar kallast BIBA camp, Borche Ilievski International Basketball Camp, en það er enginn annar en Borche Ilievski, þjálfari ÍR og fyrrverandi yfirþjálfari KFÍ, sem stendur fyrir búðunum. Borche er einmitt væntanlegur í Körfuboltabúðir Vestra í næstu viku.
BIBA búðirnar eru ætlaðar krökkum á aldrinum 12-18 ára og koma þjálfarar og iðkendur víða að úr Evrópu en iðkendur úr fleiri félögum hér á landi eru einnig á leið í búðirnar. Telur íslenski hópurinn hátt í 80 iðkendur.
Deila