Fréttir

Körfuboltaveisla á Torfnesi um helgina

Körfubolti | 10.11.2017

Óhætt er að segja að boðið verði upp á sannkallaða körfuboltaveislu á Torfnesi um helgina en þá fer fram 2. umferð Íslandsmótsins í A-riðli 10. flokks drengja. Vestramenn taka á móti KR, Fjölni, Stjörnunni og Keflavík og er um firnasterkan riðil að ræða en strákarnir okkar eru í þriðja sæti eftir fyrstu umferð. Mót af þessum styrkleika hefur ekki verið haldið á Ísafirði í ríflega áratug.

Vestri og Skallagrímur í Borgarnesi hófu samstarf í haust undir nafninu Vestramenn og tefla fram tíu manna liði, sjö frá Vestra og þremur frá Skallagrími. Vestramenn tryggðu sér sæti í 8. liða úrslitum Maltbikarkeppni KKÍ um síðustu helgi með yfirburðasigri á Breiðablik, en leikurinn fór fram í Borgarnesi. Þeir eru eins og áður segir í þriðja sæti A-riðilsins fyrir mót helgarinnar eftir sigur á Val og Fjölni og frekar naumt tap gegn Stjörnunni og KR í 1. umferð í Ásgarði í Garðabæ í síðasta mánuði.

Drengir fæddir 2002 eru óvenju fjölmennur og sterkur árgangur innan KKÍ og eru 23 lið skráð í Íslandsmót í vetur í fimm riðlum. Það er því eftirtektarverður árangur okkar manna að vera meðal efstu liða í þessum flokki en Kkd. Vestra vann sig upp í A-riðil á lokamótinu í 9. flokki á síðasta leiktímabili og varð jafnframt bikarmeistari. Þess má geta að jafn sterkt mót í þessum aldursflokki hefur ekki verið haldið á Ísafirði síðan árið 2005 en þá átti KFÍ lið í efsta riðli og voru tveir U15 leikmenn í þeim hópi, þeir Sigurður Þorsteinsson og Þórir Guðmundsson.

Þrír af Vestramönnunum sem keppa um helgina tóku þátt U15 landsliðsverkefnum í sumar, bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir úr Vestra og Marinó Þór Pálmason úr Skallagrími. Í ágúst s.l. voru þeir, ásamt Agli Fjölnissyni úr Vestra, boðaðir í 35 manna æfingahóp fyrir U16 landsliðið á næsta ári. Öll liðin sem keppa á Ísafirði um helgina eru með U15 landsliðsmenn innan sinna raða.

Þjálfarar Vestramanna eru þeir Nebojsa Knezevic, liðsmaður meistaraflokks Kkd. Vestra, og Pálmi Þór Sævarsson, yfirþjálfari yngri flokka Skallagríms.

Við hvetjum allt áhugafólk um körfubolta og stuðningsmenn Kkd. Vestra til að fjölmenna á mótið um helgina, fylgjast með úrvalskörfubolta og hvetja okkar menn til dáða. Jakinn TV stefnir að því að senda beint út frá mótinu en ekki er enn hægt að slá því föstu hvaða leikir það verða.

Leikir Vestra eru sem hér segir:

Laugardag kl. 15.30 gegn Keflavík

Laugardag kl. 18.00 gegn KR

Sunnudag kl. 10.15 gegn Stjörnunni

Sunnudag kl. 12.45 gegn Fjölni

Deila