Eins og fram hefur komið hér á síðunni, í vor og sumar, hafa orðið nokkrar breytingar á leikmannahópi KFÍ undanfarið. Í stuttu máli má segja að hópurinn hafi breikkað þótt öflugir leikmenn hafi einnig horfið af sjónarsviðinu. Eins og sjá má hér að neðan eru þeir sem bæst hafa í hópinn einkum heimamenn sem hafa snúið aftur til KFÍ, ýmist eftir hlé eða frá öðrum félögum.
Það er auðvitað afar gleðilegt að sjá þessa stráka aftur í búningi félagsins í bland við nýja félaga annarstaðar frá. Það er tilhlökkunarefni að sjá alla þessa stráka láta til sín taka á parketinu á Torfnesi síðar í vikunni gegn Íslandsmeisturum KR sem heimsækja okkur laugardaginn 19. september. Ekki er laust við að einkennislag landsliðs Íslands frá því á Evrópumótinu í Berlín „Ég er kominn heim“ komi upp í hugann í þessu samhengi.
Fyrsti heimaleikur liðsins fer fram laugardaginn 19. september og er gegn Íslandsmeisturum KR í Lengjubikarnum. Strákarnir hefja hinsvegar leik í Lengjubikarnum á morgun gegn Val á útivelli.
Farnir: Birgir Björn Pétursson (UBC Münster, Þýskaland), Andri Már Einarsson (Hættur/Rvk), Óskar Kristjánsson (Hættur/Rvk)
Komir: Björn Ágúst Jónsson (Haukar), Daníel Þór Midgley (Byrjar aftur), Hákon Ari Halldórsson (Haukar), Helgi Hrafn Ólafsson (Breiðablik), Nökkvi Harðarson (Grindavík), Rúnar Guðmundsson (Nýliði), Stígur Berg Sophusson (Byrjar aftur)
Nýir leikmenn:
Björn Ágúst Jónsson - Bakvörður - 1996 - Björn er fæddur á Ísafirði en hóf körfuboltaferill sinn með Haukum í Hafnarfirði. Hann varð Íslandsmeistari með Hafnfirðingum í drengjaflokki 2014 og bikarmeistari með sama flokki 2015.
Daníel Þór Midgley - Bakvörður - 1988 - Daníel Þór, sem er uppalinn í yngri flokkum KFÍ, á að baki 42 leiki með félaginu í 1. deild og úrvalsdeild og varð 1. deildarmeistari með liðinu vorið 2010 eftir að það vann 16 af 18 leikjum sínum í deildinni. Hann lék með Bolvíkingum í 2. deildinni á árunum 2010-2012.
Hákon Ari Halldórsson - Bakvörður - 1996 - Hákon kemur upp úr yngri flokkum KFÍ og á að baki nokkra leiki með meistaraflokki félagsins. Hann lék með Haukum síðustu tvö tímabil og varð Íslandsmeistari með Hafnfirðingum í drengjaflokki 2014 og bikarmeistari með sama flokki 2015.
Helgi Hrafn Ólafsson - Miðherji - 1988 - Helgi Hrafn lék með Breiðablik í 1. deildinni á síðasta tímabili en hefur einnig leikið með Laugdælum í 1. og 2. deildinni en hann varð 2. deildarmeistari með félaginu 2010. Hann var búsettur á Ísafirði undir lok síðustu aldar og lék með yngri flokkum KFÍ um nokkura ára skeið.
Nökkvi Harðarson - Framherji - 1996 - Nökkvi kemur til KFÍ frá UMFG. Hann hefur leikið með meistaraflokki félagsins undanfarin tvö ár og varð bikarmeistari með þeim 2014. Nökkvi varð einnig Íslandsmeistari með drengjaflokki félagsins 2015. Auk UMFG hefur Nökkvi einnig spilað á venslasamningi með ÍG en hann varð 2. deildarmeistari með þeim 2014.
Rúnar Guðmundsson - Bakvörður - 1999 - Rúnar er nýliði með meistaraflokki og kemur upp úr yngri flokkum KFÍ.
Stígur Berg Sophusson - Framherji - 1989 - Stígur Berg kemur upp úr yngri flokkum KFÍ og á að baki nokkra meistaraflokksleiki með KFÍ og UMFB í 1. og 2. deild. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokks leik árið 2009 undir stjórn Borce Ilievski, þáverandi þjálfara KFÍ.
Aðrir leikmenn:
Björgvin Snævar Sigurðsson - Framherji - 1994 - Uppalinn hjá Hamri en gekk til liðs við KFÍ í janúar 2013. Björgvin spilaði 18 leiki með félaginu í 1. deildinni í fyrra og var með 3 stig og 2 fráköst að meðaltali í leik.
Florijan Jovanov - Framherji - 1991 - Gekk til liðs við KFÍ haustið 2009, þá 18 ára gamall, fyrir tilstuðlan Borce Ilievski þáverandi þjálfara KFÍ. Lék bæði með meistaraflokki og drengjaflokki félagsins og sigraði 1. deildina með KFÍ vorið 2010. Var lykilmaður með Goce Delchev í næst efstu deild í Makedóníu tímabilið 2013-2014. Á síðastliðnu tímabili var hann með 5 stig per leik en hann spilaði einungis 8 mínútur að meðaltali sökum reglna KKÍ um erlenda leikmenn. Florijan leiddi liðið í þriggja stiga nýtingu með 42,1% hittni en mest skoraði hann 18 stig í einum leik..
Gunnlaugur Gunnlaugsson - Framherji – 1989 - Gunnlaugur er uppalinn í KFÍ og steig sín fyrstu skref með félaginu í yngri flokkum. Hann spilaði með meistaraflokki KFÍ veturinn 2005-2006 og lék alls 20 leiki með meistaraflokki á árunum 2005-2009. Gunnlaugur lék með UMFB í 2. deild karla tímabilið árin 2010-2012. Hann átti sitt besta tímabil 2011-2012 þar sem hann skoraði að meðaltali 14 stig í leik og var með 10 fráköst. Gunnlaugur gekk aftur til liðs við KFÍ á áramótum og var með 6 stig og 2 fráköst að meðaltali í 9 leikjum.
Helgi Snær Bergsteinsson - Bakvörður - 1996 - Helgi kemur upp úr yngri flokkum KFÍ og spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki vorið 2014 er hann skoraði 5 stig á móti Stjörnunni í úrvalsdeild. Helgi lék 12 leiki fyrir félagið á síðustu leiktíð í deild og bikar.
Jóhann Jakob Friðriksson - Miðherji - 1994 - Gekk til liðs við meistaraflokk KFÍ síðastliðið haustið 2013 eftir smá hlé frá körfubolta og lék 28 leiki með félaginu í deild og bikar. Jóhann tók miklum framförum á tímabilinu og var að lokum valinn í æfingarhóp U-20 landsliðsins vorið 2014. Hann var með um 4 stig og 4 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili og átt sinn besta leik á móti úrvalsdeildarliði Þórs frá Þorlákshöfn í bikarnum þegar hann skoraði 7 stig og tók 10 fráköst.
Kjartan Helgi Steinþórsson - Bakvörður - 1994 - Kjartan er uppalinn hjá Grindvíkingum þar sem hann varð bikarmeistari árið 2014. Hann lék einnig í þrjú ár í Bandaríkjunum í mennta- og háskólaboltanum. Kjartan var ekki lengi að finna sig á Ísjakanum því hann skoraði 22 stig í sínum fyrsta leik þar á móti Tindastól í Lengjubikarnum síðastliðið haust. Hann var með rúmlega 12 stig að meðaltali í leik í deild og bikar á tímabilinu.
Nebojsa Knezevic - Bakvörður/Framherji - 1987 - Nebo gekk til liðs við KFÍ haustið 2014 eftir að hafa leikið með KK Proleter Zrenjanin í Serbíu á síðasta tímabili. Lék með KFÍ í úrvalsdeildinni tímabilið 2010-2011 þar sem hann var með 14,6 stig og 4,5 fráköst í 22 leikjum. Nebojsa var einn besti leikmaður 1. deildarinnar á síðasta tímabili en hann leiddi deildina í skotnýtingu og stolnum boltum auk þess að vera í topp 10 í stigaskorun, stoðsendingum og framlagsstigum. Mest skoraði hann 43 stig í sigurleik á móti Breiðablik en hann braut 40 stiga múrinn tvívegis og var með 24,7 stig að meðaltali í leik í deildinni.
Óskar Ingi Stefánsson - Bakvörður - 1996 - Óskar kemur upp úr yngri flokkum KFÍ og spilaði sitt fyrsta tímabil í meistaraflokki á síðasta tímabili. Hann var í hóp í 11 leikjum í deild og bikar.
Pance Ilievski - Bakvörður - 1980 - Gekk til liðs við KFÍ árið 2006 og hefur leikið með liðinu síðan að undanskildu 2011-2012 tímabilinu þegar hann lék með Bolvíkingum. Á að baki um 160 meistaraflokksleiki í öllum keppnum á Íslandi og var í sigurliði KFÍ í 1. deildinni árið 2010. Kemur upprunalega frá Makedóníu en hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 2014. Er yngri bróðir Borce Ilievski, fyrrverandi þjálfara KFÍ. Byrjaði inn á í 22 af 23 leikjum sínum í fyrra og var með um 12 stig að meðaltali í leik.
Sturla Stígsson - Bakvörður/Framherji - 1979 - Uppalinn hjá KFÍ en steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Bolvíkingum rétt eftir aldarmótin síðustu. Á að baki um 130 meistaraflokksleiki með KFÍ, UMFB og Fúsíjama í deild og bikar. Hann var einn af tveimur leikmönnum félagsins sem var í hóp í öllum 24 leikjum félagsins á síðasta tímabili og var fimm sinnum í byrjunarliði.
Þjálfari:
Birgir Örn Birgisson - Þjálfari - Birgir Örn var ráðinn þjálfari meistaraflokks karla árið 2013. Á Íslandi lék hann með Bolungarvík, Þór Akureyri og Keflavík áður en hann hélt til Þýskalands þar sem hann var leikmaður og þjálfari í rúman áratug. Sem leikmaður varð hann tvívegis Íslandsmeistari með Keflavík auk þess sem hann á að baki 26 landsleiki. Birgir, sem verður 46 ára í október, dustaði rykið af skónum á síðasta tímabili sökum meiðsla annara leikmanna og spilaði 8 leiki í 1. deildinni.
Deila