Fréttir

Lokahóf Körfuknattleiksdeildar

Körfubolti | 13.03.2017
Hinrik Guðbjartsson var valinn besti og efnilegasti leikmaður meistaraflokks tímabilið 2016-2017. Hér er hann ásamt Yngva Gunnlaugssyni, yfirþjálfara Kkd. Vestra og Ingólfi Þorleifssyni formanni deildarinnar.
Hinrik Guðbjartsson var valinn besti og efnilegasti leikmaður meistaraflokks tímabilið 2016-2017. Hér er hann ásamt Yngva Gunnlaugssyni, yfirþjálfara Kkd. Vestra og Ingólfi Þorleifssyni formanni deildarinnar.
1 af 5

Síðastliðinn laugardag var lokahóf meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Vestra haldið á Hótel Ísafirði. Þótt tveir síðustu leikir deildarinnar hafi tapast bar þó engan skugga á hófið enda margt jákvætt í starfinu sem full ástæða er til að fagna. Leikmenn meistaraflokks, stjórn Kkd. Vestra og Barna- og unglingaráð komu saman og nutu ljúffengra veitinga Hótels Ísafjarðar og litu yfir tímabilið.

Árangur meistaraflokks var ásættanlegur miðað við talsverðar mannabreytingar innan liðsins í upphafi tímabils. Þá er árangurinn einnig mun betri en spá formanna, þjálfara og fyrirliða í 1. deild í upphafi móts gaf til kynna en samkvæmt henni átti liðið að enda áttunda og næst neðst sæti. Sú spá átti ekki við rök að styðjast því liðið endaði í sjötta sæti og var nálægt því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Eins og Yngvi Gunnlaugsson þjálfari vék að í ræðu sinni á lokhófinu hefði vissulega verið skemmtilegra að vinna fleiri heimaleiki en mótið raðaðist þannig að Vestri mætti sterkustu liðum deildarinnar tvisvar á heimavelli en veikari liðunum einu sinni.

Að loknum frábærum málsverði, sem kokkar veitingastaðarins Við Pollinn á hótelinu töfruðu fram, voru veittar viðurkenningar í sex flokkum: Besti leikmaðurinn, efnilegasti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn, besti varnarmaðurinn, mestu framfarir og dugnaðarforkur ársins. Auk þess fengu allir leikmenn viðurkenningar meira til gamans en þar á meðal mátti finna viðurkenningar á borð við „reiðasti leikmaðurinn“, „elsti leikmaðurinn“ og „besta tanið“.

Hinrik Guðbjartsson, leikstjórnandi var valinn besti leikmaðurinn og hlaut hann einnig nafnbótina efnilegasti leikmaðurinn. Hinrik, sem er aðeins 21 árs gamall, sýndi í vetur að hann er meðal bestu leikstjórnenda 1. deildar og meðal efnilegustu leikstjórnenda landsins. Hinrik var með 16 stig, 3,5 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.

Besti sóknarmaðurinn var valinn Nebojsa Knezevic. Það kemur væntanlega engum á óvart enda býr Nebojsa yfir fádæma sóknarhæfileikum og getur skorað stig í öllum regnbogans litum, frá troðslum yfir í þriggja stiga körfur og allt þar á milli. Nebojsa er stigahæsti leikmaður liðsins í vetur með 18,7 stig í leik auk þess að státa af 7,9 fráköstum og 2,6 stoðsendingum.

Besti varnarmaðurinn var valinn Yima Chia-Kur. Þessi öflugi Banaríkjamaður sýndi oft góða varnartakta í vetur og með hæð sinni, styrk og krafti gerði hann vörn liðsins óárennilega fyrir andstæðingana.

Nökkvi Harðarson fékk viðurkenningu fyrir mestar framfarir. Nökkvi varð fyrir því óláni að hljóta slæm höfuðmeiðsl á miðju tímabili en lét það þó ekki stoppa sig og kom gríðarlega sterkur inn í seinni hluta mótsins. Það sést vel á því að í fjórum af síðustu sex leikjum deildarinnar var hann með yfir 10 stig auk þess að vera tvisvar með tvennu (yfir 10 stig og 10 fráköst).

Dugnaðarforkur ársins var svo valinn Adam Smári Ólafsson. Adam hefur sannarlega unnið fyrir þessum titli í vetur því hann hefur bæði leikið stórt hlutverk í meistaraflokki og unglingaflokki of oft leikið þrjá leiki á helgi án þess að blása úr nös eða kvarta yfir álagi.

Deila