Fréttir

Lokahóf í körfunni

Körfubolti | 09.04.2018

Verðlaunahafarnir f.v.: Ingimar Aron Baldursson, Nebojsa Knezevic, Nemanja Knezevic, Gunnlaugur Gunnlaugsson og Björn Ásgeir Ásgeirsson.
Verðlaunahafarnir f.v.: Ingimar Aron Baldursson, Nebojsa Knezevic, Nemanja Knezevic, Gunnlaugur Gunnlaugsson og Björn Ásgeir Ásgeirsson.

Síðastliðinn föstudag var lokahóf meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Vestra haldið á Hótel Ísafirði. Á lokahófinu komu saman leikmenn, þjálfarar, stjórn deildarinnar og stjórn Barna- og unglingaráðs ásamt fleirum sem komið hafa að starfi liðsins í vetur. Það var létt yfir fólki enda náðust sett markmið fyrir tímabilið og full ástæða til að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir árangrinum.

Lið Vestra lék frábærlega í vetur og var í toppbaráttunni allt tímabilið þrátt fyrir að hafa verið spáð 8. sæti í deildinni áður en keppni hófst. Fullyrða má að árangur liðsins hefði orðið enn betri ef áföll undir lok tímabils hefðu ekki dunið yfir.

Að loknum ljúffengum kvöldverði, sem kokkar veitingastaðarins Við Pollinn á Hótelinu reiddu fram af sinni allkunnu snilld, frumsýndu leikmenn meistaraflokks skemmtilegt myndband þar sem spaugilegar hliðar vetrarins, innan vallar sem utan, voru í hávegum hafðar. Leikmenn, þjálfarar, sjúkraþálfarar og stjórnarmenn fengu þar vænan skammt af skotum og gríni.

Þorsteinn Goði Einarsson fékk sérstaka viðurkenningu frá leikmönnum meistaraflokks fyrir vinnu sína í kringum liðið á tímabilinu. Hér er hann ásamt Gunnlaugi Gunnlaugssyni leikmanni meistaraflokks með treyjuna góðu.
Þorsteinn Goði Einarsson fékk sérstaka viðurkenningu frá leikmönnum meistaraflokks fyrir vinnu sína í kringum liðið á tímabilinu. Hér er hann ásamt Gunnlaugi Gunnlaugssyni leikmanni meistaraflokks með treyjuna góðu.

Áður en viðurkenningar til leikmanna voru veittar tóku leikmenn sjálfir sig til og veittu Þorsteini Goða Einarssyni séstakan þakklætisvott fyrir starf hans með liðinu. Þorsteinn Goði hefur aðstoðað liðið á öllum heimaleikjum vetur og verið því innan handar með stórt og smátt. Sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf í veittu leikmenn Þorsteini hvíta heimavallartreyju liðsins að gjöf.

Næst var komið að veitingu viðurkenninga til leikmanna í sex flokkum: Besti leikmaðurinn, efnilegasti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn, besti varnarmaðurinn, mestu framfarir og dugnaðarforkur ársins.

Nemanja Knezevic var valinn besti leikmaður liðsins og hlaut hann einnig viðurkenningu sem besti varnarmaðurinn. Þetta tvennt kemur líklega fáum á óvart enda leiddi Nemanja 1. deildina lengi vel í framlagspunktum og var langfrákastahæsti leikmaður deildarinnar. Fáir leikmenn hafa jafn mikil áhrif á gang leiksins bæði í vörn og sókn og er hann afar vel að báðum titlunum kominn.

Besti sóknarmaðurinn var valinn Nebojsa Knezevic annað árið í röð. Þetta kemur væntanlega ekki á óvart heldur enda býr Nebojsa yfir gríðarlegum hæfileikum sóknarlega. Hann getur skorað stig af öllu tagi, frá troðslum í þriggja stiga körfur og allt þar á milli. Mikilvægast er þó að Nebojsa gerir aðra leikmenn betri í kringum sig og var hann stoðsendingahæsti leikmaður 1. deildar á tímabilinu.

Viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar á tímabilinu fékk Ingimar Aron Baldursson. Hann hefur átt frábært tímabil og hefur vaxið mikið bæði sóknarlega og varnarlega. Þessi hæfileikaríki ungi piltur á framtíðina fyrir sér sem sést best á því að sama dag og lokahófið fór fram var hann valinn í 24 manna æfingahóp U-20 landsliðsins sem tekur þátt í A-deild FIBA Europe í sumar.

Björn Ásgeir Ásgeirsson hlaut nafnbótina efnilegasti leikmaðurinn. Björn Ásgeir er aðeins 17 ára gamall en sýndi og sannaði í vetur að hann getur risið undir stóru hlutverki. Hann átti flott tímabil og vakti varnarleikur hans sérstaka athygli. Yngvi Gunnlaugsson þjálfari liðsins kom sérstaklega inn á þennan þátt í máli sínu og benti á að Björn Ásgeir hafi iðulega fengið það vandasama hlutverk að dekka bandaríska leikmenn mótherjanna sem hann leysti vel af hendi. Björn Ásgeir var fyrr í vetur valinn í úrtakshóp U-18 ára landsliðs Íslands.

Dugnaðarforkur ársins var svo valinn Gunnlaugur Gunnlaugsson. Gunnlaugur er leikmaður sem leggur ætið allt í sölurnar inn á vellinum í keppni en ekki síður á æfingum. Slíkt viðhorf og elja er dýrmætur eiginleiki sem smitar út frá sér og hefur jákvæð áhrif á liðið sem seint verður metið til fulls. Gunnlaugur hefur ennig sinnt félagslegu starfi innan deildarinnar vel og er ætíð tilbúinn að leggja sitt af mörkum í þjálfun og dómgæslu hjá yngri flokkum.

Þótt tímabil meistaraflokks sér formlega á enda runnið er starfsemi Körfuknattleiksdeildarinnar síður en svo komin í dvala þar sem yngri flokkar eru á fullu í Íslandsmótinu. Unglingaflokkur félagsins átti enmitt tvo leiki á laugardag á Íslandsmótinu gegn Tindastóli og þurfti stór hluti meistaraflokks því að vakna snemma á laugardagsmorgun. Leikirnir fóru fram á Hólmavík en skemmtilegt er að segja frá því að þetta eru fyrstu opinberu körfuboltaleikirnir sem leiknir eru þar í áraráðir. Báðir leikirnir unnust og greinilegt að lokahófssteikin fór vel í mannskapinn. Einnig má geta þess að B-lið Vestra sem keppir í 3. deild Íslandsmótsins leikur um næstu helgi í undanúrslitum deildarinnar gegn liði Fjarðabyggðar en nánar verður greint frá því þegar nær dregur.

Það er bjart framundan hjá Vestra og við hlökkum til næstu missera og allra mest hlökkum við til þegar flautað verður til leiks á Íslandsmótinu í 1. deild á nýjan leik í haust.

Deila