Vestri mætti Breiðabliki í 1. deild karla í gærkvöldi á útivelli í Kópavogi. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur á toppi deildarinnar því bæði lið voru jöfn að stigum, aðeins einum sigri á eftir Skallagrími sem vermdi efsta sætið. Innbyrðis höfðu liðin unnið sitthvorn leikinn og því var þessi þriðji leikur í raun úrslitaleikur í innbyrðis viðureignum liðanna og gæti því haft enn meiri þýðingu þegar líður á mótið. Það var því mikið í húfi þegar flautað var til leiks en Vestri náði að tryggja sér sætan sigur 92-95. Okkar menn verma því einir annað sætið sem stendur á eftir Skallagrími. Litlu munaði þó að Skallagrímsmenn hefðu misstigið sig gegn hinu unga og efnilega liði Fjölnis sem situr í sjötta sæti. Skallagrímsmenn mörðu þó tveggja stiga sigur með körfu á lokasekúndum leiksins. Leikir gærkvöldsins voru því nokkuð dæmigerðir fyrir deildina því liðin eru ótrúlega jöfn og svo virðist sem allir geti unnið alla.
Blikar hittu gríðarlega vel í fyrsta leikhluta sérstaklega í þriggja stiga skotum og segja má að það hafi skilað þeim 10 stiga forskoti að fjórðungnum loknum. Engu að síður var leikurinn jafn og ljóst að Vestramenn áttu ekki að eiga í neinum vandræðum með að vinna sig inn í leikinn aftur. Í öðrum leikhluta átti Vestri gott áhlaup og minnkaði muninn í 5 stig áður en hálfleiknum lauk. Vetstramenn gáfu ekkert eftir í þriðja leikhluta og þótt heimamenn hafi leitt í fyrstu 5 mínútur leikhlutans var eins og Vestri væri smátt og smátt að ná tökum á leiknum. Þegar leið á þriðja fjórðung seig Vestri framúr og leiddi með þremur stigum 73-76. Loka fjórðungurinn var gríðarlega spennandi en Vestri virtist hafa góð tök á leiknum og var kominn í þægilega 7 stiga forystu 82-89 þegar innan við 2 mínútur voru til leiksloka. En Blikar voru fjarri því að hafa játað sig sigraða og náðu, með frábærri vörn og stórkostlegum sóknartilþrifum Jeremy Smith, að jafna leikinn 91-91 þegar aðeins 22 sekúndur voru eftir. Vestramenn tóku leikhlé og settu upp sókn sem endaði á góð áhlaupi Nebojsa Knezevic á körfuna sem endaði með villu. Nebó fór á vítalínuna og skoraði úr báðum skotunum. Í næstu sókn Blika fór Jeremy Smith svo á vítalínuna en honum brást bogalistin í fyrra vítinu og náði því aðeins að minnka muninn í eitt stig með 5 sekúndur eftir á klukkunni. Vestri átti ekki leiklé og urðu því að taka boltann inn undir eigin körfu. Blikarnir pressuðu Vestra stíft í innkastinu en Vestra mönnum tókst þó að éta 3 sekúndur af klukkunni áður en Blikar brutu á Ingimar Baldurssyni. Ingimar var öryggið uppmálað á vítalínunni og skoraði úr báðum vítum sínum. Þær tvær sekúndur sem eftir lifðu af leiknum dugðu Blikum ekki, enda áttu þeir engin leiklé eftir til að færa sig nær körfu Vestra, og því var sigur Vestra staðreynd.
Þeir félagar Nebojsa og Nemanja Knezevic voru báðir gríðarlega góðir. Nebojsa daðraði við þrennuna, skoraði 33 stig, tók 12 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og stal 2 boltum. Nemanja skoraði 29 stig, tók 12 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Ingimar og Björn Ásgeir skoruðu 11 stig hvor og skiluðu varnarleiknum af prýði. Hjá heimamönnum var Snorri Vignisson atkvæðamestur með 22 stig og Jeremy Smið kom næstur með 20 stig.
Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.
Bendum einnig á skemmtilega myndasyrpu á Facebook síðu Karfan.is.
Afar mikilvægur sigur í höfn og gott veganesti í næsta leik sem er heimaleikur á Jakanum gegn spútkinliði deildarinnar Gnúpverjum. Sá leikur fer fram föstudaginn 9. Febrúar og hvetjum við að sjálfsögðu Ísfirðinga til að fjölmenna á Jakann og styðja strákan.
Deila