Stjórn KFÍ (KKD Vestra) og Birgir Örn Birgisson hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hann stigi til hliðar sem þjálfari meistaraflokks karla KFÍ. Birgir mun áfram sinna þjálfun hjá yngri flokkum félagsins.
Stjórn KFÍ hefur undanfarið leitað leiða til styrkja starfsemi yngri flokka félagsins. Niðurstaðan er sú að ráða til félagsins yfirþjálfara sem sinna mun þjálfun og skipulagi yngri flokkanna ásamt þjálfun meistaraflokks karla. Uppbygging yngri flokkanna er fjöregg félagsins, en mjög hefur fjölgað í yngri æfingahópum undanfarin misseri og brýnt að koma skipulagi þeirra í fastari skorður. Því telur stjórn mikilvægt að huga strax að þessum framtíðaráformum. Til að liðka fyrir leit að einstaklingi í þessa nýju stöðu hjá félaginu er það sameiginleg ákvörðun stjórnar KFÍ og Birgis Arnar að hann víki sem þjálfari meistararaflokks en sinni áfram þjálfun á vegum yngri flokkanna.
Stjórn KFÍ færir Birgi Erni bestu þakkir fyrir hans fórnfúsa starf í þágu félagsins undanfarin ár og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við hann. Þar til nýr yfirþjálfari kemur til starfa munu þeir Guðni Ólafur Guðnason og Shiran Þórisson stýra æfingum og leikjum meistaraflokks karla.
Deila