Fréttir

Nebojsa semur við Vestra

Körfubolti | 19.04.2017
Ingólfur Þorleifsson og Nebojsa Knezevic handsala samninginn.
Ingólfur Þorleifsson og Nebojsa Knezevic handsala samninginn.

Skömmu áður en sjoppuvakt Körfuknattleiksdeildar Vestra hófst síðastliðinn laugardag á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður skrifuðu Ingólfur Þorleifsson, formaður Kkd. Vestra og Nebojsa Knezevic undir nýjan samning milli deildarinnar og leikmannsins. Það var vel við hæfi að velja þetta tækifæri enda rímar heiti tónlistarhátíðarinnar vel við tilefnið því ljóst er að þessi serbneski Vestfirðingur, sem hér hefur dvalið í tæp þrjú ár, er ekki á leiðinni suður!

Stjórn Kkd. Vestra er afar ánægð með að hafa tryggt sér krafta þessa hæfileikaríka leikmanns næsta tímabil. Auk þess að leika með liðinu mun Nebojsa sinna starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks og taka að sér þjálfun yngri flokka. Nebojsa er frábær liðsfélagi og fagmaður í körfubolta sem styrkir liðið bæði inna vallar sem utan. Hann hefur verið meðal bestu leikmanna 1. deildarinnar undanfarin þrjú ár. Á tímabilinu sem er ný lokið lék hann 19 leiki, skoraði 19 stig, tók 8 fráköst og gaf 3 stoðsendingar að meðaltali þrátt fyrir að deila stöðu sinni með öðrum erlendum leikmanni.

Það eru spennandi tímar framundan hjá Kkd. Vestra og við hlökkum til næsta vetrar.

Áfram Vestri!

Deila