Miðherjinn Nemanja Knezevic hefur framlengt samning sinn við Körfuknattleiksdeild Vestra og leikur því með liðnu á komandi tímabili.
Nemanja hefur leikið með frábærlega með Vestra undanfarin þrjú ár og verið einn besti leikmaður fyrstu deildarinnar allann þann tíma. Á síðasta tímabili var hann framlagshæsti leikmaður Vestra með 28,15 punkta að meðaltali í leik, 18,35 stig, 13,75 fráköst og 2 stoðsendingar. Nemanja er búsettur á Ísafirði ásamt eiginkonu sinni og mun auk þess að leika með liði meistaraflokks halda áfram því góða starfi sem hann hefur sinnt undanfarin ár í þjálfun yngri flokka félagsins.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra lýsir mikilli ánægju með samninginn og hlakka til áframhaldandi samstarfs við Nemanja á komandi tímabili. Nú er unnið hörðum höndum að því að undirbúa næsta tímabil og er þessi samningur mikilvægur liður í því ferli. Þegar mótið var blásið af í vetur var árangur liðsins samkvæmt áætlun og greinilegur stígandi í leik liðsins. Við erum sannfærð um að ef mótinu hefði lokið með eðlilegum hætti værum við nú að búa liðið undir þátttöku í Dominos-deildinni. Þótt sú framtíðarsýn hafi ekki orðið að veruleika í vor er ljóst að stefnan er áfram sett í þá átt.
Áfram Vestri!
Deila