Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Vestra var haldið í beinu framhaldi af aðalfundi deildarinnar þann 24. apríl síðastliðinn. Að þessu sinni var sú nýbreytni viðhöfð að elstu iðkendum deildarinnar í yngri flokkum, frá 9. flokki upp í drengja- og stúlknaflokk, var jafnframt boðið til hófsins. Þetta þótti vel við hæfi þar sem elstu drengirnir hafa verið hluti af æfingahópi meistaraflokks og stúlkurnar eru elstu kveniðkendur deildarinnar, ef frá eru taldar valkyrjurnar á Móðurskipinu.
Þetta var skemmtileg kvöldstund í stórum og góðum hópi og nutu allir kræsinga af Muurikka-pönnum þeirra Þorsteins Þráinssonar og Evu Friðþjófsdóttur, sem hafa verið í bakhjarlasveit Vestra og KFÍ um langt skeið.
Að venju veitti Yngvi Páll Gunnlaugsson yfirþjálfari viðurkenningar. Besti leikmaðurinn var valinn Nemanja Knezevic en hann var jafnframt valinn besti varnarmaður liðsins. Nebojsa Knezevic var valinn besti sóknarmaðurinn, Hugi Hallgrímsson besti ungi leikmaðurinn, Hilmir Hallgrímsson fékk nafnbótina dugnaðarforkurinn og Egill Fjölnisson hlaut viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar. Sérstök verðlaun, „Járnmaðurinn“ hlaut Gunnlaugur Gunnlaugsson fyrir ósérhlífið starf í þágu félagsins en þess má einnig geta að Gunnlaugur var fyrr um kvöldið kosinn sem varamaður í stjórn deildarinnar.
Að lokinni verðlaunaafhendingu veitti stjórn deildarinnar Guðmundi Kort Einarssyni lítinn þakklætisvott fyrir óeigingjarnt starf í þágu körfuknattleiks á Ísafirði en Guðmundur flytur suður á Akranes nú í vor. Þau eru ófá verkin sem Guðmundur hefur gengið í fyrir deildina í gegnum tíðina. Guðmundur hefur setið í stjórn deildarinnar sem varamaður undanfarin ár og sinnt fjölmörgum verkefnum á þeim vettvangi sem verða seint fullþökkuð. Hans verður þó líklega einna mest saknað af vettvangi Jakans-TV en hann hefur undanfarin ár borið uppi metnaðarfullar útsendingar Jakans af einstakri elju og dugnaði.
Eins og fram hefur komið hér á síðunni eru breytingar í vændum hjá Vestra þar sem Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari, mun láta af störfum þegar líður á sumarið. Yngvi skilar góðu búi og því má fullyrða að bjart sé framundan hjá Körfuknattleiksdeild Vestra.
Þótt punktur hafi verið settur aftan við gott tímabil meistaraflokks á lokahófinu er ýmislegt framundan í starfsemi deildarinnar en þar ber líklega hæst Körfuboltabúðir Vestra sem fram fara dagana 4.-9. júní næstkomandi.
Deila