Fréttir

Ný stjórn KFÍ tekin til starfa

Körfubolti | 21.04.2015
Shiran Þórisson færði Guðna Ólafi Guðnasyni þakklætisvott frá félaginu fyrir vel unnin störf í gegnum tíðina.
Shiran Þórisson færði Guðna Ólafi Guðnasyni þakklætisvott frá félaginu fyrir vel unnin störf í gegnum tíðina.
1 af 2

Síðastliðinn mánudag fór fram aðalfundur KFÍ á 50 ára afmælisári félagsins á Hótel Ísafirði. Líkur eru á að þessi fundur, sem haldinn er á 50 ára afmæli félagsins, marki viss þáttaskil í sögu körfuboltans á Ísafirði því eins og fram hefur komið eru allar líkur á því að KFÍ og fleiri íþróttafélögu sameinist nú á vordögum undir merkjum nýs fjölgreinafélags.

 

Að lokinni kynningu á skýrslu stjórnar og ársreikningi var gengið til kosninga. Nýr formaður var kosinn Ingólfur Þorleifsson en hann hefur starfað í stjórn félagsins til fjölda ára, þ.á m. sem formaður, og snýr nú aftur í stjórn eftir árs hlé. Auk Ingólfs voru kosin í stjórn þau Birna Lárusdóttir og Shiran Þórisson fráfarandi formaður til tveggja ára. Á síðasta aðalfundi voru þau Anna Valgergður Einarsdóttir og Ingi Björn Guðnason kosin og sitja þau áfram. Þrír varamenn í stjórn voru kosnir til eins árs þeir Magnús Heimisson, Jóhann Birkir Helgason og Guðmundur Einarson.

 

Að loknum kosningum kvaddi Shiran Þórssion sér hljóðs og færði Guðna Ólafi Guðnasyni, sem nú gengur úr stjórn félagsins eftir áralanga stjórnarsetu, sérstakar þakkir félagsins fyrir óeigingjörn störf í þágu þess, jafnt sem leikmaður, þjálfari og stjórnarmaður. Guðni ávarpaði fundinn og tók sérstaklega fram að hann færi ekki langt og yrði hér eftir sem hingað til til taks fyrir félagið.

 

Undir liðnum önnur mál kynnti Sævar Óskarsson, sem situr í sameiningarnefnd félaga fyrir hönd KFÍ, stöðu mála í því ferli.  Einnig færði Guðjón Þorsteinsson, stjórnarmaður í KKÍ, félaginu sérstakar kveðjur stjórnar KKÍ í tilefni afmælisársins. Sjá nánar um störf aðalfundar í fundargerð.

 

Ný stjórn KFÍ hefur nú þegar hafið störf og fundaði strax daginn eftir aðalfund og skipti með sér verkum. Stjórn KFÍ er þannig skipuð sem áður segir:

 

Ingólfur Þorleifsson, formaður

Neil Shiran Þórisson, gjaldkeri

Anna Valgerður Einarsdóttir, ritari

Birna Lárusdóttir, meðstjórnandi

Ingi Björn Guðnason, meðstjórnandi

Guðmundur Einarsson, varamaður

Jóhann Birkir Helgason, varamaður

Magnús Þór Heimisson, varamaður

Deila