Vestri tók á móti nýliðum Gnúpverja í þriðju umferð 1. deildar karla í körfubolta í gær. Leikurinn var fjörugur og mikið skorað. Heimamenn rufu hundrað stiga múrinn og gestirnir voru ekki fjarri því en leiknum lauk með sigri Vestra 105-92.
Leikurinn var hraður og harður og greinilegt að Gnúpverjar ætluðu að selja sig dýrt. Þeir voru fastir fyrir og skiptu leikmönnum ört sem nýttu fimm villu kvótann nokkuð vel án þess að lenda í teljandi villuvandræðum. Varnarleikur Vestra var ekki beinlínis til fyrirmyndar lengst af í leiknum og Bandaríkjamaðurinn Everage Lee Richardson lék vörnina oft og tíðum grátt, hann endaði með 40 stig og var allt í öllu í sóknarleik gestanna. En þeir félagar Nemanja og Nebojsa hjá Vestra voru í banastuði í kvöld, sá fyrrnefndi með aðra tröllatvennuna 21 stig og 22 fráköst auk 6 stoðsendinga og sá síðarnefndi með 35 stig og 8 fráköst. Adam Smári var einnig drjúgur í sókninni og skilaði 19 stigum þar af 8 stigum í röð í góðu áhlaupi heimamanna í byrjun seinni hálfleiks. Allir leikmenn Vestra komu við sögu í leiknum og það gladdi áhorfendur þegar hinn sextán ára Þorleifur Ingólfsson skellti niður þriggja stiga körfu í sínum öðrum meistaraflokksleik á lokamínútu leiksins.
Þetta var mikilvægur sigur og góð tilfinning að vera ósigraðir á heimavelli í upphafi tímabils. En það er stutt á milli leikja því á morgun sunnudag ferðast strákarnir til Hafnar í Hornarfirði þar sem þeir spila við 2. deildar lið Sindra í 32 liða úrslitum Maltbikarsins. Næstkomandi föstudag er svo aftur heimaleikur í deildinni en þá kemur lið FSu í heimsókn.
Ítarlega tölfræði úr leiknum má nálgast á vef KKÍ.
Deila