Stúlkurnar í 8. flokki KFÍ (Vestra) luku keppni í C- riðli fimmtu og síðustu umferðar Íslandsmótsins um síðustu helgi. Þær eru nær allar nýliðar í körfubolta en hafa tekið stórstígum framförum á stuttum tíma og eru reynslunni ríkari eftir viðburðarríkan vetur.
Þar sem stelpurnar komu nýjar til leiks í haust hófu þær keppni í C-riðli og enduðu veturinn einnig þar. Mót helgarinnar fór fram í Valsheimilinu að Hlíðarenda. Fyrsti leikurinn var á móti b liði Vals og áttu KFÍ stelpur virkilega flottan leik. Þær börðust og spiluðu hörku vörn og unnu leikinn sannfærandi 36-24. Þess má til gamans geta að KFÍ stúlkur fengu aðeins 4 stig á sig í fyrri hálfleik - flottur og virkilega verðskuldaður sigur.
Næsti leikur fór fram strax í kjölfar þess fyrsta og fengu KFÍ stúlkur litla sem enga hvíld fyrir leikinn gegn skemmtilegu KR liði. Það sást fljótlega að KR stúlkur höfðu meiri orku og keyrðu því hart á okkar stúlkur. Staðan í hálfleik var 8-20 KR í vil. KFÍ stúlkur komu sterkari inn í seinni hálfleikinn og náðu að minnka muninn niður í 6 stig. Þá var búið að ganga heldur betur á orkuforðann og KR stelpur tóku öll völd. Lokatölur voru 21-47 fyrir KR.
Þriðji og síðasti leikurinn var á móti gríðarsterku a liði Vals. Valur byrjaði af miklum krafti með svokallaða pressuvörn sem KFÍ stúlkur lentu í smá vandræðum með að leysa. Það dró því strax verulega í sundur með liðunum en KFÍ stúlkur gáfust aldrei upp. Baráttan og leikgleðin voru til staðar fram á síðustu mínútu en leikurinn endaði með stórum sigri Vals 40-12.
Að baki er frábær vetur hjá 8. flokki kvenna. Þegar haft er í huga að þetta er fyrsti veturinn sem þær keppa saman sem flokkur og langflestar eru að stíga sín fyrstu spor á keppnisvellinum þá er árangurinn undraverður. Nökkvi Harðarson, þjálfari stúlknanna, á mikið hrós skilið fyrir frábæra þjálfun og einstaklega gott utanumhald.
Það verður áhugavert í alla staði að fylgjast með framgangi þessa öfluga hóps næsta vetur. Ef stúlkurnar verða duglegar að æfa sig í sumar og koma af krafti til leiks næsta haust geta þær náð enn betri árangri á næstu leiktíð. Áfram Vestri!
Deila