Fréttir

Öruggur sigur á FSu

Körfubolti | 20.10.2017
Yngvi páll og lærisveinar hans lönduðu góðum sigri í kvöld.
Yngvi páll og lærisveinar hans lönduðu góðum sigri í kvöld.

Vestri lagði FSu örugglega 82-68 í kvöld. Um það bil sem flautað var til leiksloka bárust fregnir af því að jörð hafi skolfið rétt norðan við Selfoss. Hvort drunurnar frá magnaðri tröllatvennu sem Vestramaðurinn Nemanja Knezevic skilaði í kvöld voru þess valdandi skal ósagt látið en pilturinn sá átti magnaðan leik á þrítugsafmælisdegi sínum. Sannarlega maður leiksins.

Vestramenn mættu mjög ákveðnir til leiks og spiluðu hörku vörn frá fyrstu sekúndu. Gestirnir fengu erfið skot og hittu illa en skoruðu þó fyrstu tvö stig leiksins af vítalínunni. Björn Ásgeir setti svo tóninn fyrir Vestra með tveimur þriggja stiga körfum í röð og upp frá því leiddu heimamenn. Þessi frábæri varnarleikur í fyrsta fjórðungi skóp í raun sigurinn því gestirnir sáu vart til sólar eftir hann. Þeir náðu þó aðeins að rétt úr kútnum í öðrum fjórðungi með því að skipta í svæðisvörn sem gaf góða raun og var munurinn aðeins 8 stig, 40-32 í hálfleik. Vestramenn mættu þó ákveðnir til leiks eftir hálfleik og bættu í forystuna sem skilaði öruggum sigri.

Eins og fyrr segir átti afmælisbarn dagsins, Nemanja Knezevic enn einn stórleikinn með enn eina tröllatvennuna. Hann skoraði 29 stig, tók 19 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og var með 45 framlagspunkta. Nebojsa skilaði líka góðu dagsverki með 19 stig og 7 fráköst. Björn Ásgeir átti frábæran leik, spilaði hörkuvörn eins og endranær, skoraði 15 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Adam skoraði 8 stig og tók 8 fráköst, Nökkvi skoraði 6 stig, tók 5 fráköst og var með 5 stoðsendingar og Ingimar skoraði 5 stig og gaf 3 stoðsendingar. Þótt aðrir leikmenn hafi ekki komist á blað í stigskorun lögðu þeir sig alla fram í verkefnið og skiluðu sínu.

Hjá gestunum var Jett Speelman atkvæðamestur með 16 stig, Ari Gylfason skoraði 13 en aðrir minna.

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.

Deila