Fréttir

Pistill formanns: Gleðjumst yfir leiknum – gleymum dómurunum

Körfubolti | 17.09.2015
Ingólfur Þorleifsson, formaður KFÍ.
Ingólfur Þorleifsson, formaður KFÍ.

Kæru stuðningsmenn og iðkenndur.

 

Nú er körfuboltatímabilið nýhafið og ríkir mikil tilhlökkun meðal leikmanna og stjórnar KFÍ að takast á við verkefni komandi vetrar. Við vonumst auðvitað eftir góðum stuðningi Ísfirðinga og nærsveitunga á heimavelli í vetur líkt og í gegnum tíðina. Stuðningur ykkar er ómetanlegur fyrir félagið og er hann límið í þeirri umgjörð sem oft og tíðum hefur gert Jakann að öflugasta heimavígi landsins.

 

Nú í upphafi tímabilsins langar mig að deila með ykkur þeirri stefnu sem ég vil að við öll, leikmenn og stuðningsmenn, tökum varðandi samskipti við þá dómara sem koma til með að dæma hjá okkur í vetur. Mér hefur verið bent á að Ísafjörður sé meðal þeirra staða sem skeri sig úr þegar kemur að skítkasti í garð dómara. Í gegnum árin hef ég ekki verið barnanna bestur og látið dómara heyra það ef ég er ekki sáttur. Ég hef hinsvegar komist að því að það hefur hvorki skilað mér né KFÍ nokkrum sköpuðum hlut. Því er undirritaður nú kominn í það persónulega verkefni að hætta afskiptum af störfum dómara. Það mun án efa taka á að stilla sig en ég er kominn á þá skoðun að það skili okkur meiru að dómurunum líði vel í vinnunni á okkar heimavelli. Ég vil með þessum orðum fara fram á það við ykkur, iðkendur og stuðningsmenn, að koma fram við dómara af virðingu. Þetta er vanþakklátt og erfitt starf sem óþarfi er að gera enn erfiðara með skítkasti og leiðindum. Eitt getum við verið viss um, leikmaður sem er með hugann við dómgæsluna er ekki með hugann við það sem skiptir máli – sjálfan leikinn. Hið sama gildir um okkur áhorfendur, óhróður í garð dómara er ekki hvatning til liðsins okkar. Tökum stuðningsmenn Íslenska landsliðsins í Berlín á Evrópumótinu okkur til fyrirmyndar og látum stuðninginn við KFÍ einkennast af gleði yfir leiknum sem við elskum. Önnur hlið á þessu máli er svo sú að við fullorðna fólkið verðum að sýna börnunum gott fordæmi. Þau hafa ekkert með að læra þessa hegðun enda smitast þetta inn í leik þeirra séu þau iðkendur.

 

Með von um áframhaldandi góðan stuðning á Jakanum. Áfram KFÍ!

 

Ingólfur Þorleifsson,

formaður KFÍ

Deila