Fréttir

Rándýr stig í hús gegn Skallagrím

Körfubolti | 31.01.2014
Josh var sannarlega í stuði í kvöld. Mynd Benedikt Hermannsson/sportmyndir.com
Josh var sannarlega í stuði í kvöld. Mynd Benedikt Hermannsson/sportmyndir.com
KFÍ og Skallagrímur mættust í kvöld í gríðarlega mikilvægum leik í botnbaráttu Domino’s deildar karla. Ísfirðingar voru án Ágústs Angatýssonar, þriðja stigahæsta leikmanns liðsins, en hann varð óvænt veðurtepptur í Reykjavík þegar síðasta flugi dagsins var aflýst þrátt fyrir glimmrandi veður og logn fyrir vestan.
 
Páll Axel Vilbergsson var sjóðandi heitur í byrjun leiks en eftir fimm og hálfa mínútu var staðan KFÍ 4, Paxel 15. Á þessum tímapunkti ákváðu Ísfirðingar að kannski væri sniðugt að setja mann í andlitið á Palla og dugði það til að heimamenn skoruðu 12 af næstu 15 stigum leiksins. Gestirnir leiddu þó með fjórum, 16-20, í lok fyrsta leikhluta en þar af komu 17 stig frá Paxel.
 
Mikil barátta var í leikmönnum beggja liða í fyrsta leikhluta, svo mikil að dómarinn skipaði báðum liðum að færa bekkina aftar til að forða þeim frá leikmönnum og boltum sem komu fljúgandi yfir hliðalínuna.
 
Í öðrum leikhluta var svo komið að Joshua Brown að setja á svið smá sýningu en hann skoraði í honum 16 stig í öllum regnbogans litum og var kominn með 27 stig í hálfleik, tveimur minna en Paxel sem var með 29 stig.
 
Brown hélt áfram að hitta vel í seinni hálfleik og undir hans forustu komust Ísfirðingar aftur yfir í fyrsta sinn síðan á upphafsmínútunum, 49-48, þegar skammt var liðið af þriðja leikhluta. Mest náði KFÍ 10 stiga forustu í fjórða leikhluta en gestirnir hjukku á það á loka mínútunum.
 
Þegar 35 sekúndur voru eftir þá setur Mirko Stefán niður rándýra körfu um leið og skotklukkan gellur og kemur Ísfirðingum 7 stigum yfir, 83-76. Skallagrímur svarar hins vegar með tveimur þriggja stiga körfum á milli þess sem KFÍ tapar boltanum og munurinn skyndilega orðinn 83-82.
 
Þegar 14 sekúndur voru eftir þá brýtur Grétar Ingi Erlendsson á Guðmundi Guðmudssyni þegar hann virðist vera kominn einn fram. Dómararnir dæmdu þó bara venjulega villu og tvö vítaskot. Einhvað virðist pressan hafa farið með Guðmund því hann múraði báðum vítunum og gaf Skallagrím einn loka séns til að vinna leikinn. Benjamin Curtis Smith fékk boltann í lokin, keyrði upp að körfunni en erfitt skot hjá honum geigaði og Mirko Stefán innsiglaði sigurinn með því að hrifsa til sín frákastið.
 
Með sigrinum eru Ísfirðingar jafnir Skallagrím að stigum og einungis 4 stigum á eftir Snæfellingum sem eru í 8. sæti deildarinnar.
 
Maður leiksins var klárlega Joshua Brown. Spurning er hvort Ísfirðingar geti þakkað dómurunum fyrir það því fyrsta verk þeirra fyrir leikinn var að reka Brown úr síðbuxunum sínum. Hvort það hafi leyst þessa sprengju úr læðingi skal ósagt látið en engu síður setti Brown, sem virtist á köflum ekki getað klikkað á skoti, niður 49 stig og jafnaði þar með persónulegt met sitt hér á landi en hann setti einnig 49 stig fyrir KR á móti Snæfell í bikarkeppni KKÍ árið 2012. Hann var einnig einungis 6 stigum frá félagsmeti Clifton Bush sem setti 55 stig fyrir KFÍ á móti Skallagrím í fjórframlengdum leik árið 1999.
 
Mirkó Stefán Virijevic sýndi enn og aftur hvers vegna hann er einn besti íslenski stóri maðurinn í deildinni, þrátt fyrir að vera ekki valinn í stjörnuleikinn, og setti 26 stig og tók 15 fráköst.
 
Páll Axel var langbesti maður Skallagríms en hann setti niður alls 9 þrista og 36 stig. 29 af þessum stigum komu í fyrri hálfleik, flest á móti svæðisvörn Ísfirðinga, en í þeim seinni var hann í stífri gæslu Jón Hrafns Baldvinssonar sem hélt honum í 7 stigum á síðustu 24 mínútunum.
 
Benjamin Curtis Smith vill líklegast gleyma þessu leik sem fyrst þrátt fyrir að enda með þrennu (14 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar). Hann kom inn í leikinn með meðalstigaskor upp á 39,3 stig og 95% vítanýtingu (38/40) en klikkaði úr 12 fyrstu skotunum sínum og endaði með að hitta úr 3 af 18 skotum. Þar spilaði stórt inn í frábær varnarleikur Vals Sigurðssonar og Guðmundar Guðmundssonar en þeir skiptust á að liggja á honum eins og frakki. Ekki gekk honum betur á vítalínunni en þar setti hann einungis niður 6 af 13 skotum sínum.
 
Grétar Ingi Erlendsson átti einnig fínan leik fyrir Skallagrím en hann setti niður 10 stig en spilaði þó einungis rúmlega 16 mínútur.
 
 
-SS
 
 
Deila