Hátt í 100 krakkar kíktu við á Körfuboltadaginn hjá okkur á Torfnesi á laugardaginn og hafa þeir sjaldan verið fleiri. Rífandi stemmning var í salnum en það voru leikmenn meistaraflokks karla ásamt þjálfurum yngri flokka sem héldu utan um leiki og ýmsar boltastöðvar. Sumir iðkendur hrepptu veglega vinninga í stinger og 3. stiga keppnum og allir fóru heim með plakat af íslenska landsliðinu í körfubolta sem hóf einmitt leik gegn Þýskalandi rétt í þann mun sem Körfuboltadeginum lauk.
Foreldrar og forráðamenn fjölmenntu með krökkunum og var ánægjulegt að sjá mörg ný andlit í þeim hópi. Það er von Barna- og unglingaráðs að sem flest áhugasöm börn láti verða af því að kíkja á æfingar hjá viðeigandi aldurshópum. Það kostar foreldra ekkert að leyfa yngstu krökkunum að æfa körfubolta og nýir iðkendur í minnibolta eldri og uppúr æfa gjaldfrjálst fyrstu tvo mánuðina. Farið verður á minniboltamót við hæfi hvers aldursflokks í vetur en krakkar í 7. flokki og eldri taka þátt í Íslandsmótum KKÍ.
Barna- og unglingaráð þakkar meistaraflokki fyrir aðstoðina á laugardaginn og sömuleiðis þökkum við að þessu sinni sérstaklega tveimur dyggum styrktaraðilum yngri flokkanna en það eru Samkaup og H.V. Umboðsverslun á Ísafirði.
Deila