Helgin framundan er risavaxin körfuboltahelgi með tveimur leikjum hjá meistaraflokki karla í 1. deild, sitthvorum leiknum hjá stúlknaflokki og 10. flokki stúlkna og fjölliðamóti hjá 7. flokki stúlkna.
Meistaraflokkur karla leikur tvíhöfða gegn nýliðum Sindra í 1. deildinni á Torfnesi um helgina. Fyrri leikurinn fer fram á laugardag kl. 14 og sá seinni á sama tíma á sunnudag. Vestri landaði góðum útisigri í síðustu umferð gegn Selfossi en Sindramenn eru enn án sigurs í 1. deildinni.
Á laugardag leika stelpurnar í 7. flokki í fyrstu umferð Íslandsmótsins í C-riðli, sem er haldin hér heima og etja þær kappi við Fjölni, Val og Njarðvík B. Fyrri dagur mótsins fer fram í Bolungarvík á laugardag og hefst kl. 16:00 en síðari dagurinn fer fram á Torfnesi og hefst kl. 9:00 á sunnudagsmorgun.
Á sunnudagsmorgun kl. 11 mætir 10. flokkur Vestrastúlkna Njarðvík B og kl. 16 á sunnudag keppir stúlknaflokkur Vestra gegn Keflavík. Báðir leikirnir fara fram í Bolungarvík.
Það verður því í nógu að snúast í körfuboltanum um helgina og hvetjum við alla til að mæta á sem flesta leiki og styðja við bakið á Vestra!
Deila