Á fundi stjórnar KFÍ sem haldinn var í gær lét Sævar Óskarsson af störfum sem formaður félagsins en hann hefur setið í stjórn frá árinu 2005, þar af gegnt starfi formanns frá árinu 2010. Af þessu tilefni hefur Sævar sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„Kæru KFÍ félagar.
Enginn ræður sínum næturstað og er staðan hjá fjölskyldu minni nú þannig að mér er nauðsynlegt að einbeita mér að verkefni henni tengdri. Ljóst er að ég verð erlendis þegar síðustu leikir meistaraflokks fara fram á þessum vetri og ekki til taks við uppgjör og lok tímabilsins. Ég hef því ákveðið að víkja sem stjórnarmaður og formaður félagsins þannig að hagsmunir þess skaðist ekki með fjarveru stjórnarmanns. Félagið er ríkt af metnaðarfullu hæfileikafólki sem er tilbúið að vinna að hagsmunum KFÍ og maður kemur í manns stað - það gerir svona ákvörðun léttbærari. Ég vil þakka ykkur öllum; leikmönnum, iðkendum, þjálfurum, foreldrum, stuðningsmönnum og stjórnarfólki fyrir farsælt samstarf á formannsferli mínum. Ég verð áfram í bakvarðasveit félagsins og mun styðja það með ráðum og dáð, hér eftir sem hingað til.
Áfram KFÍ!"
Á stjórnarfundinum var Óðinn Gestsson kosinn til að leiða starf stjórnar og félagsins til næsta aðalfundar. Magnús Þór Heimisson kemur nú inn sem aðalmaður í stjórn.
Stjórn KFÍ færir Sævari bestu þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins til margra ára. Einnig fylgja velfarnaðaróskir til þeirra hjóna en Margrét, eiginkona Sævars, heldur brátt til Bandaríkjanna til lækninga.
Deila