Í gærkvöldi var samþykkt á félagsfundi KFÍ að taka fullan þátt í sameiningu íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Á fundinum kynnti Gísli Jón Hjaltason, formaður Boltafélags Ísafjarðar og Sævar Óskarsson, fyrrverandi formaður KFÍ, vinnu undirbúningshóps um sameiningu íþróttafélaganna. En þeir hafa, ásamt Sigurði Hreinssyni, formanni Blakfélagsins Skells, unnið að tillögum þessa efnis og kynnt þær fyrir íþróttafélögum á svæðinu.
Í kjölfar kynningar Gísla Jóns og Sævars var borin upp tillaga þess efnis að KFÍ taki þátt í sameininganefndinni sem verður skipuð tveimur fulltrúum frá hverju íþróttafélagi auk eins oddamanns sem sameiningarnefndin tilnefnir. Tillagan var samþykkt samhljóða. Þvínæst voru þeir Guðni Ólafur Guðnason og Sævar Óskarsson kosnir samhljóða sem fulltrúar KFÍ í sameiningarnefndinni.
Miðað er við að nefndin skili niðurstöðum fyrir 1. apríl næstkomandi.
Sjá nánar í fundargerð félagsfundarins.
Deila