Fréttir

Settir á ís á Jakanum

Körfubolti | 26.10.2012
Momci var fínn í kvöld
Momci var fínn í kvöld

Það er óhætt að segja að þessi leikur fari í sögubækurnar. Fyrir það fyrsta litu Keflvíkingar vel út í KFÍ búningum og helst til of vel þar sem sá sem átti að setja búningana í bílinn klikkaði og þarf sá hinn sami að sjá um þvott þeirra næsta árið ef við þekkjum Sigga rétt.

 

Við byrjuðum leikinn ágætlega og áttum fyrstu 4 stigin, en þá kom flott áhlaup hjá Kef og snéru þeir leiknum sér í hag og komust í 6-16 og þá tók Pési leikhlé. Það virkaði ágætlega og komum við til baka og minnkuðum muninn í 19-24 í byrjun öðrum leikhluta, en þá jóku drengirnir úr Keflavík aftur við sér og komu þessu í 10 stig og staðan 21-31. Enn komum við inn í leikinn minnkuðum muninn í 3 stig 28-31 og aftur í 1 stig 37-38 og leikur í gangi á Jakanum, en  Keflavík sá til þess að halda okkur í fjarlægð og staðan verðskulduð í hálfleik 39-43.

 

Í þriðja leikhluta var ótrúlegur tröppugangur í leik beggja liða og sáust misheppnaðar sendingar sem fóru ýmist á dómara eða á varamannabekk liðanna.  Keflavík var samt með tögl og haldir á leiknum og komust í 46-65 og fólk farið að minnast á leik KR í gær gegn Snæfell þar sem við vorum gjörsamlega á hælunum líkt og KR. En þá kom frábær kafli hjá KFÍ og náðum við leiknum í 60-65 eða 14-0 áhlaup og allt opið. Keflvikingar tóku þá til sinna ráða og með Greion í broddi fylkingar hendandi sér út og suður náðu þeir aftur taki á leiknum og 63-72 og horfðu ekki til baka.

 

Leikurinn endaði með verðskulduðum sigri Keflavík, lokatölur urðu 69-79 og drengirnir út bítlabænum með sín fyrstu stig í fjórum leikjum og önduðu léttar.

 

Hjá Keflavík áttu þeir Glitner, Graion og Lewis ágætis leik og skoruðu samtals 57 stig Keflvíkinga ásamt því að taka 27 fráköst. Valur skilaði sínu og Almar var þéttur í vörninni. Þeir þurftu að hafa fyrir þessum sigri og að fá 79 stig á sig er ekkert slæmt hjá KFÍ, en sóknin var slök og var einstaklingsframtakið allsráðandi.

 

Momci var góður og stigahæstur okkar drengja með 25 stig. Ungu strákarnir þeir Gummi og Óskar sýndu fínan leik og spiluðu mikið sem við erum ánægðir með því að svona leikreynsla skilar sínu. BJ, Pance, Jón Hrafn og Mirko áttu fína spretti, en Chris var týndur í kvöld.

 

Við eigum þó mikið inni og þetta er enginn endir. Nú þarf bara að leggja þennan inn á bókina miklu og einbeita sér að næsti leikjum sem eru gegn Snæfell á sunnudag og fimmtudag í Stykkishólmi. Annar í Lengjubikarnum og hinn í Dominosdeildinni.

 

Það fer að styttast í endurkomu Kristjáns Péturs og er það flott mál. Svo kemur þetta jafnt og þétt. Það er ekki alslæmt að vera með tvo sigra í fjórum leikjum, en ekki gott að gera það að vana að sætta sig við 50% hlut. 

 

Við vitum að KFí koma sterkir til leiks í átökum næstu vikna og læra af þessum leik sem örðum sem tapast. Það er hollt að læra og koma til baka sterkari en í síðasta leik.

 

Tölfræði leiksins

Deila