Vestri tekur á móti Hamri frá Hveragerði í síðasta heimaleik liðsins fyrir úrslitakeppnina á morgun föstudaginn 8. mars. Liðin tvö hafa bæði tryggt sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar en eru enn í harðri baráttu um heimavallaréttinn í undanúrslitum.
Hamarsmenn eru í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig en Vestri í 5. sæti með 24 stig líkt og Höttur sem situr þó sæti ofar vegna innbyrðis viðureigna. Fyrir ofan þessi lið eru svo Fjölnir með 28 stig í öðru sæti og Þór Akureyri í efsta sæti með 30 stig. Staðan í deildinni er því galopin og verður spennandi að sjá hvernig spilast úr síðustu tveimur umferðunum. En ljóst er að þessi leikur við Hamar er mikilvægur í toppbáráttunni.
Nú ríður á að skapa góða stemmningu á Jakanum og sýna hvað þessi heimavöllur getur verið sterkur fyrir úrslitakeppnina. Þess má líka geta að iðkendur í 3.-4 bekk munu leiða leikmenn inn á völlinn og hvetjum við foreldra, afa og ömmur þessara krakka sérstaklega til að mæta.
Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:15 en grillmeistarar Vestra verða tilbúnir með hamborgara um klukkan 18:20. Sama góða verðið á borgurunum, 1.000 kr. og gosflaska fylgir með. Almennur aðgangseyrir er 1.500 krónur en 1.000 kr. fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn.
Jakinn-TV verður að sjálfsögðu með beina útsending frá leiknum fyrir þá sem ekki eru staddir á norðanverðum Vestfjörðum á YouTube rás sinni.
Nú ríður á að skapa góða stemmningu fyrir úrslitakeppnina. Við vonumst til að sjá sem flesta á Jakanum á morgun til að styðja við bakið á strákunum.
Áfram Vestri!
Deila