Fréttir

Síðbúin verðlaunaafhending eftir Nettó

Körfubolti | 08.03.2017
Myndarlegur hópur Nettófara ásamt þjálfurum og fulltrúum barna- og unglingaráðs. Allnokkur börn komust ekki á verðlaunaafhendinguna vegna flensunnar sem nú herjar.
Myndarlegur hópur Nettófara ásamt þjálfurum og fulltrúum barna- og unglingaráðs. Allnokkur börn komust ekki á verðlaunaafhendinguna vegna flensunnar sem nú herjar.

Allt gekk að óskum hjá liðsmönnum Kkd. Vestra sem tóku þátt í Nettómótinu í Reykjanesbæ um helgina en 47 börn voru skráð til keppni í níu liðum. Mótið er ætlað börnum í 1.-5. bekk og hafa þátttakendur frá Vestfjörðum aldrei verið fleiri. Sýndu iðkendurnir okkar miklar framfarir á mótinu auk þess sem prúðmannleg framkoma Vestrakrakkanna vakti athygli mótshaldara og fengu þau mikið hrós fyrir. Óvenjustór hópur foreldra fylgdi börnunum eftir um helgina og var það mál þeirra að mótið hefði í alla staði tekist vel enda umgjörð þess öll hin glæsilegasta.

Mótinu er jafnan slitið með veglegri verðlaunaafhendingu og lokaathöfn en mörg undanfarin ár hafa körfuboltakrakkar að vestan ekki getað tekið þátt í henni þar sem hún er jafnan svo seint á sunnudegi og langur vegur heim í misjöfnum veðrum. Í fyrra afréð félagið að halda eigin verðlaunaafhendingu þegar heim var komið. Það tókst vel og var fyrirkomulagið endurtekið í ár. Í dag fjölmenntu því Nettófarar og foreldrar þeirra í íþróttahúsið að Torfnesi þar sem verðlaunaafhendingin fór fram. Allir þátttakendur fenga veglega medalíu og glæsilegan körfubolta að gjöf frá mótshöldurum. Því miður gátu allnokkur börn ekki verið viðstödd verðlaunaafhendinguna í dag vegna flensunnar sem nú herjar en hún hjó einnig skarð í keppendahópinn um helgina.

Barna- og unglingaráð Kkd. Vestra hafði veg og vanda að skipulagningu Vestraferðarinnar og vill ráðið koma á framfæri sérstöku þakklæti til helstu stuðningsaðila ferðarinnar sem voru að þessu sinni Arna í Bolungarvík, Samkaup á Ísafirði og Bakarinn á Ísafirði. Þessi fyrirtæki og mörg önnur eru ávallt boðin og búin til að styrkja börn af norðanverðum Vestfjörðum í íþróttaferðum og munar um minna hjá íþróttafélögum sem staðsett eru svo langt frá höfuðborgarsvæðinu þar sem flest íþróttamót fara fram.

Deila