Meistaraflokkur karla í körfubolta lék tvo leiki um síðustu helgi. Fyrri leikurinn var gegn ÍA á Skaganum og unnu strákarnir hann sannfærandi 67-76. Síðari leikurinn var gegn toppliði Hattar austur á Egilsstöðum og tapaðist sá leikur 78-54.
Með sigrinum á ÍA héldu strákarnir lífinu í von um sæti í úrslitakeppninni. Leikurinn var jafn en Vestramenn höfðu samt yfirhöndina allan leikinn og lönduðu góðum 9 stiga sigri. Hinrik Guðbjartsson var besti maður Vestra með 24 stig, 6 stoðsendingar og 8 fráköst. Neobjsa var með 14 stig og 7 fráköst Nökkvi með 10 stig og 10 fráköst og Adam Smári var einnig með 10 stig. Yima með 8 stig, Gunnlaugur með 7 og Helgi Bergsteinsson með 3.
Fyrirfram var vitað að leikurinn gegn Hetti yrði erfiður. Vestramenn mættu samt ákveðnir til leiks og voru mun betri í fyrsta fjórðungi og leiddu að honum loknum 12-19. Hattarmenn náðu vopnum sínum í öðrum fjórðungi og minnkuðu muninn í 27-30. Í síðari hálfleik fór svo að halla undan fæti hjá Vestra og Hattarmenn gengu á lagið. Þótt lokatölurnar gefi til kynna að um ójafnan leik hafi verið að ræða gefa þær ekki rétta mynd af leiknum. Margt jákvætt mátti sjá í leik Vestramanna og alveg ljóst að liði hefur burði í að vinna lið eins og Hött.
Þrátt fyrir tapið gegn Hetti er enn fræðilegur möguleiki á að ná sæti í úrslitakeppninni, en til þess þarf Vestri að vinna alla þrjá leiki sína sem eftir eru og Hamarsmenn að tapa öllum sínum. Hamarsmenn töpuðu í kvöld gegn Breiðabliki svo enn er vonarneisti til staðar. Vestri á leik gegn Ármanni á mánudaginn kemur en tveir síðustu leikir tímabilsins verða leiknir hér heima gegn Valsmönnum dagana 10.-11. mars.
Áfram Vestri!
Deila