Fréttir

Sigur á Ármanni og sætið í deildinni tryggt

Körfubolti | 18.03.2016
Sigurstund í Kennaraháskólanum að leik loknum!  Mynd: Guðmundur Kort Einarsson.
Sigurstund í Kennaraháskólanum að leik loknum! Mynd: Guðmundur Kort Einarsson.

KFÍ (Vestri) lagði Ármann í kvöld í Íþróttahúsi Kennaraskólans 67-83. Leikurinn var algjör úrslitaleikur um áframhaldandi sæti í 1. deild. Með sigrinum höldum við sæti okkar í 1. deild þar sem við munum leika undir merkjum Vestra á næsta tímabili.

Ármenningar hófu leikinn af miklum krafti og nýttu sér hripleka vörn KFÍ í fyrrihálfleik. Á sama tíma gekk sóknarleikur KFÍ ekki nógu vel og voru þriggja stiga skotin sérstaklega ekki að detta. Í seinni hálfleik varð algjör viðsnúningur í leiknum og greinilegt að hálfleiksræða þjálfaranna Guðna og Shirans hefur skilað sér. Vörnin þéttist og sóknarleikurinn fór að ganga betur. Þar munaði mestu um algjöran stórleik Nebojsa sem fór algjörlega hamförum í seinni hálfleik.

Það er því óhætt að fagna í kvöld  og horfa björtum augum til framtíðar og sannarlega ánægulegt að síðasti leikur KFÍ í sögunni skuli hafa verið sigurleikur. Það er gott veganesti inn í framtíðina undir merkjum Vestra.

Eins og fyrr segir fór Nebojsa hamförum í leiknum og skoraði 32 stig, tók 13 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal 3 boltum. Kjartan Helgi átti einnig flottan leik, skoraði 21 stig, tók 2 fráköst, stal 2 boltum og gaf eina stoðsendingu. Birgir Björn skoraði 9 stig og reif niður 14 fráköst og stal 2 boltum. Daníel Freyr skoraði 7 stig, tók 3 fráköst og gaf 1 stoðsendingu og stal 1 bolta. Pance skoraði 6 stig, Nökkvi 5 stig, Daníel Midgley 2 stig og Jóhann Jakob skoraði 1 stig.

Frábær sigur.

Áfram Vestri! 

Deila