Fréttir

Sigur hjá stelpunum í fyrsta leik

Körfubolti | 02.10.2010
Pance stýrði KFÍ konum til sigurs og er efni í herforingja í þessu hlutverki líka.  (Mynd: Helgi Kr. Sigmundsson)
Pance stýrði KFÍ konum til sigurs og er efni í herforingja í þessu hlutverki líka. (Mynd: Helgi Kr. Sigmundsson)
1 af 18
Það var frábær stund fyrir KFÍ þegar meistaraflokkur kvenna steig á parketið á ný eftir um 5 ára fjarveru úr keppni.  Það voru kunn andlit sem byrjuðu leikinn og höfðu fjórar af fimm í byrjunarliðinu  spilað með meistaraflokki kvenna KFÍ áður.  Í byrjunarliðinu voru Hafdís Gunnarsdóttir, Stefanía Ásmundsdóttir , Sigríður Guðjónsdóttir og Sólveig Pálsdóttir,  nýliðinn í byrjunarliðinu var Lindsay Church en hún er nemi í Háskólasetri Vestfjarða sem hefur spilað í háskólaboltanum í Kanada.  Þetta hlé frá keppni virtist ekki hrjá stelpurnar sem byrjuðu af krafti og komust fljótlega í 7-0. Þórsarar vöknuðu við þetta og komu hægt og bítandi til baka og í lok fyrsta fjórðungs var tiltölulega jafnt.

Í fyrsta fjórðung var Stefanía Ásmundsdóttir hjá KFÍ að rifja upp gamla takta og skoraði 5 stig í fjórðungnum auk þess að hirða þó nokkur fráköst.   Sigríður Guðjónsdóttir var einnig góð og setti niður 4 stig.  Ungu stelpurnar Eva Kristjánsdóttir, Vera  Óðinsdóttir  og Sunna  Sturludóttir fengu að spreyta sig og komust þokkalega frá sínu. 

Í öðrum fjórðung hrökk  KFÍ í gang, vörnin var góð og sóknarleikurinn yfirvegaður undir öruggri stjórn Sólveigar Pálsdóttur og Jennýar.  Lindsay, Hafdís, Stefanía og Sigríður sáu um stigaskorunina í fjórðungnum og nýttist reynsla þessara leikmanna vel við að byggja upp smá forskot.  Hjá Þórsurum hitnaði skyttan Súsanna Karlsdóttir og setti hún 2 mikilvæga þrista, sem hélt þeim inn í leiknum. Staðan í hálfleik var 32-19 fyrir KFÍ. 

Í þriðja fjórðung var jafnræði með liðunum og skiptust liðin á körfum og sýndi hin síunga Sólveig að hún hefur engu gleymt og eftir að hafa stýrt liðinu af yfirvegun í leikstjórnandahlutverkinu og fleygt sér á lausu boltana sem komu nærri henni smelltu hún tveimur opnum skotum til þess að kóróna leik sinn.  Hún er eins og eðalvínin, verður bara betri með árunum.  I lok leikhlutans var KFÍ búið að auka forskot sitt og var staðan 45-30.

Í fjórða fjórðung var komið að nýrri kynslóð í meistaraflokki kvenna KFÍ.  Þær eldri og reynslumeiri hvíldu sig eftir átökin og í upphafi fjórðungsins byrjuðu 5 stelpur úr stúlkna- og 9. flokki kvenna KFÍ.  Eftir smá hik þá komust stelpurnar af stað og var Eva  áberandi í sínum aðgerðum, hún var ákveðin og hvergi bangin.  Hinar stúlkurnar  Sunna, Vera, Marelle Maekaelle og Guðlaug Sigurðardóttir fylgdu fordæmi hennar og skiluðu sínu hlutverki vel.  Hjá Þórsurum hitnaði Ásta Gestsdóttir og setti hún niður þrjá þrista.  Staðan í leikslok var 55-39 fyrir KFÍ og fyrsti sigurinn hjá meistaraflokki kvenna í fyrstu deildinni í höfn.

Það var liðsheildin sem skóp þennan sigur og greinilegt er að  reynsluboltarnir í liðinu munu vera drjúgar fyrir liðið í vetur.  En framtíðin er björt og munu yngri stelpurnar án efa sýna það og sanna í vetur.

Panche Ilievski byrjar vel sem þjálfari liðsins og leyfði öllum að spreyta sig í leiknum og voru  leikmenn liðsins að spila agaðan sóknarleik og hörkuvörn.

Það voru um 50 áhorfendur á leiknum og myndaðist góð stemming á pöllunum.

Arnar Guðmundsson og Þórir Guðmundsson dæmdu leikinn vel.


Stigaskor  KFÍ:
Sigríður Guðjónsdóttir: 12 stig
Stefanía Ásmundsdóttir: 11 stig
Lindsay Church: 10 Stig
Hafdís Gunnarsdóttir: 8 Stig
Eva Kristjánsdóttir: 6 Stig
Sólveig Pálsdóttir: 4 stig
Marelle Maekaelle. 2 Stig
Sunna Sturludóttir : 2 Stig



Myndir frá leiknum. Deila