Meistaraflokkur karla gerði góða ferð upp á Skaga í gær þegar ÍA og Vestri áttust við í æfingaleik. Okkar menn gerðu sér lítið fyrir og unnu sannfærandi sigur á ÍA með 95 stigum gegn 70. Leikurinn var sögulegur því þetta var fyrsti meistaraflokksleikurinn okkar undir merkjum Vestra og því vel við hæfi að hefja þá göngu með sigri.
Yngvi Gunnlaugsson þjálfari leggur þó áherslu á að þetta hafi verið dæmigerður æfingaleikur og að hvorugt liðanna verði dæmd til fullnustu af honum. „En allt sem við lögðum upp með fyrir leikinn gekk upp. Allir leikmenn okkar komu inn á og allir skoruðu sem er í sjálfu sér ánægulegt,“ segir Yngvi og bætir því við að sóknarleikurinn hafi gengið mjög vel en að þótt liðið hafi aðens fengið á sig 70 stig sé ýmislegt eftir í vinnu við að bæta varnarleikinn. Puð undanfarnar vikur og góðar sumaræfingar hafa þó greinilga skilað sínu því liðsmenn Vestra voru í góðu líkamlegu formi í leiknum og héldu vel út.
Eftir fyrsta leikhluta var staðan 16-18 fyrir Vestra og í háfleik 45-34. Fyrir síðasta leikhluta var staðan orðin 70-55 okkar mönnum í vil. Í fjórða leikhluta náðu Skagamenn að minnka munin í 4 stig en síðustu 7 mínútur leiksins áttu Vestramenn gott áhlaup sem skilaði 25 stiga sigri.
Hjá Vestra var Nebosja stigahæstur með 25 stig, þar á meðal var ein glæsileg troðsla undir lok leiksins. Adam Smári skoraði 14 stig, Stígur Berg, Björgvin og Hinrik skoruðu 9 stig og Hákon Ari 8. Allir aðrir leikmenn komust á blað en skoruðu minna.
Deila