KFÍ-R tekur þátt í Utandeild Breiðabliks annað árið i röð en megin uppistaðan í liðinu er gamlir KFÍ leikmenn ásamt nokkrum vel völdum aðilum. Í fyrra duttu strákarnir út í 8-liða úrslitum eftir að hafa sigrað riðilinn sinn en stefnan í ár er að sjálfsögðu að gera betur og vinna deildina. Smá breytingar hafa orðið á liðinu en Böðvar Sigurbjörnsson söðlaði um og gekk til liðs við Bifröst og Bjarni Valgeirsson fór að spila með ÍR í Iceland Express deildinni. Í stað þeirra eru komnir Gunnlaugur Jónasson, leikmaður BÍ/Bolungarvíkur sem unnu sig upp í 1. deildina í sumar, og bræðurnir Páll og Halldór Pálssynir.
Í Utandeild Breiðabliks eru 10 liðum skipt í tvo riðla og er leikið eftir hraðmótsreglum. 2x16 mínútna leikhlutar, víti gefur tvö stig og "handboltaskiptingar" eru leyfðar.
KFÍ-R hefur leikið tvo leiki á tímabilinu og var fyrsti leikur tímabilsins var gegn All-in. KFÍ-R byrjðu sterkt í þeim leik og komust 14 stigum yfir í fyrri hálfleik. Þá tók kæruleysið öll völd og All-in komu sér aftur inn í leikinn. Strákarnir héldu forystunni fram að síðustu mínútunni en þá settu All-in tvo þrista í röð sem tryggði þeim sigurinn (þar af einn frá söngvaranum Hreimi í Land og Sonum sem var ekkert til að bæta tapið).
Næsti leikur liðsins var gegn Bifröst. KFÍ-R byrjaði einnig sterkt í þeim leik og komust í 15-2 um miðjan fyrri hálfleik. Í stað þess að gefa upp forskotið héldu strákarnir haus og leiddu allan leikinn með þægilegt 10 stiga forskot. Bifröst gerði áhlaup í lok leiksins en allt kom fyrir ekki og sigraði KFÍ-R 38-31. Helgi Dan var atkvæðamestur með 10 stig, Steini skoraði átta stig og Pétur var með sex.
Deila