Fréttir

Sigurvegarar í Svíþjóð

Körfubolti | 17.05.2018
Lið Vestra ásamt Yngva þjálfara með bikarinn. Efri röð f.v.: Helena Haraldsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Snæfríður Lillý Árnadóttir, Gréta Proppé Hjaltadóttir, Katla María Sæmundsdóttir, Sædís Mjöll Steinþórsdóttir, Vala Karítas Guðbjartsdóttir, Hera Kristjánsdóttir. Neðri röð f.v.: Viktoría Rós Þórðardóttir, Sara Emily Newman, Bríet Vagna Birgisdóttir, Rakel Damilola Adeleye.
Lið Vestra ásamt Yngva þjálfara með bikarinn. Efri röð f.v.: Helena Haraldsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Snæfríður Lillý Árnadóttir, Gréta Proppé Hjaltadóttir, Katla María Sæmundsdóttir, Sædís Mjöll Steinþórsdóttir, Vala Karítas Guðbjartsdóttir, Hera Kristjánsdóttir. Neðri röð f.v.: Viktoría Rós Þórðardóttir, Sara Emily Newman, Bríet Vagna Birgisdóttir, Rakel Damilola Adeleye.
1 af 3

Stelpurnar í 9. flokki Vestra lögðu land undir fót í síðustu viku þegar þær tóku þátt í stóru norrænu körfuboltamóti, Göteborg Basketball Festival, undir styrkri stjórn Yngva Gunnlaugssonar þjálfara og Örnu Bjarkar Sæmundsdóttur fararstjóra. Árangur liðsins var frábær því stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu B-úrslit mótsins og tóku því glæsilegan bikar með sér heim. Glæsilegur endir á viðburðarríku tímabili hjá þessu frábæra liði!

Það var mikil tillhlökkun í hópnum fyrir ferðina enda í fyrsta sinn sem þessar efnilegu körfuboltastúlkur keppa á erlendri grund. Lið Vestra var skráð til leiks í flokk 16 ára stúlkna. Liðið spilaði því uppfyrir sig en flestar eru þær 15 ára þótt einnig séu í liðinu þrjár 14 ára stúlkur. Alls voru 28 lið skráð til keppni í þessum aldursflokki frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Vestra stúlkur spilaði í E-riðli þar sem þær mættu þremur sænskum liðum, Haga Haninge Röd, Spångbasket og Lerum Basket.

Riðlakeppnin

Fyrsti leikur liðsins var á fimmtudagskvöld gegn Haga Haninge Röd, en það lið reyndist þegar upp var staðið sigurvegarar riðilsins. Þetta var því sterkur mótherji og kannski var líka einhver ferðaþreyta í okkar stelpunum en leikurinn tapaðist 13-32. Næsti leikur liðsins fór fram á föstudagsmorgun gegn Lerum Basket og var strax ljóst að okkar stelpur voru mættar ákveðnar til leiks. Þetta var hörkuleikur sem Vestri sigraði 25-27. Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari benti fréttaritara á að þetta væri sögulegur sigur því hann væri án alls vafa fyrsti sigur kvennaliðs frá Vestra á erlendri grund. Trúlega er þetta einnig fyrsti sigur kvennaliðs frá Ísafirði utan landsteinanna. Þessi úrslit gerðu það að verkum að lokaleikurinn í riðlinum skar úr um hvort Vestri eða Spångabasket kæmust áfram í A-úrslit. Vestrastúlkur áttu ágætan leik en náðu þó ekki að landa sigri. Sæti í B-úrslitum var þó tryggt og því ekkert annað að gera en að bíta í skjaldarrendur og undirbúa það spennandi verkefni.

Spennan í hámarki í úrslitum

Í B-úrslitunum sýndu stelpurnar að þær hungraði í bikarinn. Barátta og vilji til að sigra einkenndi leik liðsins. Í 16-liða úrslitum mætti Vestri danska liðinu Falcon sem þær unnu sannfærandi 28-13. Í 8-liða úrslitum mættu stelpurnar Malbas BBK. Þetta var hörkuleikur og úrslitin réðust á lokasekúndunum 21-20 fyrir Vestra eftir að flautukarfa Malbas BBK var dæmd ógild. Þaðan lá leiðin í undanúrslit gegn sænska liðinu Haga Haninge Vit. Aftur var um hörku leik að ræða. Undir blálokin var sænska liðið tveimur stigum yfir en Vestra stúlkur náðu að knýja fram framlengingu með körfu á loka sekúndum venjulegs leiktíma frá Helenu Haraldsdóttur. Í framlengingunni voru Vestrastelpur mjög ákveðnar og skoruðu 4 stig gegn engu þeirra sænsku. Þar með var ljóst að Vestri lék til úrslita gegn FUBB Basket.

Úrslitaleikurinn

Úrslitaleikurinn var jafn og spennandi eins og leikirnir á undan en reyndist þó sá allra mest taugatrekkjandi. Skömmu áður en flautað var til leiksloka var Vestri þremur stigum yfir, 23-26 en á ögurstundu náði FUBB Basket að skora þriggja stiga flautukörfu og knýja fram framlengingu. Enn ein framlengingin tók því við! Þar komst FUBB 2 stigum yfir en greinilegt var að okkar stelpur ætluðu sér sigur og náðu þær að jafna og enn ein framlengingin tók við. Þar tók gildi svokölluð gullkörfu regla, þ.e. liðið sem yrði á undan að skora myndi sigra leikinn. FUBB vann boltann í dómarakasti í byrjun framlengingar og náðu þær góðri sókn en náðu ekki að skora undir körfunni. Þær sænsku náðu sóknarfrákastinu og fengu því annað tækifæri en náðu ekki að nýta sér það. Vestri tapaði svo boltanum í næstu sókn og því fengu þær sænsku þriðju tilraun til að vinna leikinn. Vörn Vestra var hinsvegar frábær og unnu þær boltann. Rakel Damilola Adeleye kom upp með boltann og gerði strax áhlaup á kröfuna og fékk dæmd tvö víti. Andrúmsloftið var rafmagnað þegar hún fór á línuna og fór um heldur betur um áhorfendur þegar fyrra vítið klikkaði. En Rakel brást ekki bogalistinn í seinna vítinu sem hún smellti niður. Gullkarfa og sigur Vestra staðreynd!

Glæsilegur árangur hjá stelpunum sem sýndu og sönnuðu hvers þær eru megnugar. Það er varla hægt að hugsa sér betri endi á góðu tímabil en þennan – að landa titli í hús!

Áfram Vestri!

Deila