Fréttir

Spennandi Vestfjarðamót framundan.

Körfubolti | 14.10.2011
Nú verður fjör
Nú verður fjör

Ríflega þrjátíu manna hópur iðkenda, þjálfara og aðstandenda í KFÍ er á leið til Patreksfjarðar í fyrramálið en þar fer fram Vestfjarðamótið í körfubolta um helgina. Mótið er ætlað iðkendum í minnibolta og 7. flokki, bæði strákum og stelpum, en það eru krakkar á aldrinum 9-12 ára. Í KFÍ hópnum eru bæði Ísfirðingar og Bolvíkingar og munu þeir etja kappi við iðkendur íþróttafélagsins Harðar á Patreksfirði og nærsveitamenn.

 

Nokkuð langt er um liðið síðan Vestfjarðamót í körfu var haldið síðast en það er von forystu KFÍ að takist vel til um helgina nái mótið að festa sig í sessi til framtíðar. Mótið er liður í auknu samstarfi KFÍ og Harðar en nú þegar hefur meistaraflokkur karla haldið þar æfingabúðir auk þess sem 10. flokkur stúlkna var þar á dögunum í æfingaferð. Hörður á Patreksfirði hefur skipulagt spennandi dagskrá fyrir Vestfjarðamótið með pizzuveislu, bíóferð og diskói til viðbótar körfuboltanum en aðstaða til svona mótshalda er til mikillar fyrirmyndar á Patreksfirði.

Deila