Fréttir

Spennusigur á Ísafirði

Körfubolti | 07.12.2013
KFÍ og Snæfell mættust í kvöld í Domino’s deild karla á Ísjakanum á Ísafirði. Fyrir leikinn var Snæfell í 8. sæti með 4 sigra og 4 töp á meðan KFÍ var í 11. sæti með 1 sigur í 8 leikjum.
 
Síðast þegar þessi lið mættust þá fór allt í háaloft vegna meintra sparka, nefbrots og umdeildar jöfnunarkörfu Snæfellinga í lok venjulegs leiktíma. Þótt þessi leikur hafi ekki alveg náð sömu hæðum á því sviði þá mátti þó finna í honum talsvert af pústrum, dramaköstum og háspennu.
 
Sveinn Arnar Davíðsson var settur til höfuðs Jason Smith frá fyrstu mínútu og lá á honum eins og frakki. Það truflaði flæði sóknarleiks Ísfirðinga talsvert í byrjun en Hólmarar náðu þó ekki að nýta sér það enda voru þeim ansi mislagðar hendur í sínum sóknarleik. Þeir töpuðu fjórum boltum á fyrstu fjórum mínútunum og sex alls í leikhlutanum.
 
Ágúst Angatýsson, sem var í barneignarleyfi í síðasta leik, nýtti sér athyglina sem Smith fékk frá varnarmönnum Snæfells og setti átta stig í fyrsta leikhluta, þar af 2 þrista. Smith sótti í sig veðrið þegar á leið leikhlutans og endaði með 11 stig í honum en KFÍ leiddi 21-13 í lok hans.
 
Snæfell tók við sér í öðrum leikhluta, skoraði 11-2 á fyrstu tveimur og hálfri mínútu hans og tók forustuna 23-24. KFÍ náði þó forustunni fljótlega aftur undir forustu Ágústar og Vals Sigurðssonar sem skoraði 8 stig í leikhlutanum og leiddu í hálfleik 43-39.
 
Talsverður hiti var í fyrri hálfleik en Ingi Þór, bekkurinn hjá Snæfell og Jason Smith fengu ítrekaðar viðvaranir vegna tuðs.
 
Nonni Mæju byrjaði á bekknum hjá Snæfell en augljóst var á honum að hann á við meiðsli að stríða. Hann reyndi þó að spila en varð að gefast upp rétt fyrir hálfleik og endaði með 2 stig á 4 mínútum.
 
Á kafla í seinni hálfleik leit út fyrir að KFÍ ætlaði að stinga af. Ágúst fór hamförum í byrjun þriðja leikhluta og skoraði 8 stig og hjálpaði KFÍ að ná 9 stiga forustu, 69-60. Pálmi Freyr Sigurgeirsson setur þá niður þrist fyrir Hólmara og við það kveiknar neisti sem ekki hafði sést hjá þeim fyrr í leiknum. Skora þeir 19 stig á móti 7 stigum Ísfirðinga það sem eftir lifir leikhlutans og fara með 67-70 forustu inn í fjórða og síðasta fjórðunginn.
 
Ísfirðingar hafa tapað æði mörgum jöfnum leikjum í vetur og því var fróðlegt að sjá hvernig þeir myndu bera sig á lokasprettinum í þessum. Þeir náðu forustunni aftur á fyrstu 30 sekúndunum með körfum frá Ágústi og Val en Stefán Karel Torfason náði henni þó aftur fyrir gestina með tveimur körfum í röð.
 
Heimamenn gáfust þó ekki upp og náðu 6 stiga forustu, 83-77, þegar ein og hálf mínúta er eftir. Pálmi Freyr setur þá niður þriðja þristinn sinn í leiknum og stuttu seinna fiskar Vance Cooksey villu og fær tvö víti. Pressan virðist þó hafa farið með hann því hann múraði báðum vítunum.
 
Ísfirðingar halda því í sókn og reyna að ná sem mestu niður af klukkunni áður en þeir skjóta. Jason Smith keyrir að körfunni þegar stutt er eftir af skotklukkunni en rennur til. Hann nær þó að koma boltanum á Ágúst Angatýsson sem skorar vægast sagt erfiða körfu þegar ein sekúnda er eftir af skotklukkunni.
 
Smith stelur svo boltanum af Cooksey í næstu sókn gestanna og brunar í hraðaupphlaup. Hann hitti þó ekki úr skotinu undir körfunni en það kom ekki að sök því Valur Sigurðsson fylgdi vel á eftir, náði frákastinu og rak síðasta naglann í líkkistu Hólmarana. Athygli vakti að enginn Hólmari hljóp til að hjálpa Cooksey í vörninni fyrir utan Pálma Frey sem var þó aftastur gestanna þegar Jason stal boltanum.
 
Lokastaðan 89-80 Ísfirðingum í vil og þeir komnir upp í 9. sæti, fjórum stigum á eftir Snæfelli í 8. sæti.
 
Gestirnir úr hólminum voru gjörsamlega heillum horfnir í skotunum í fjórða leikhluta. Samtals hittu þeir einungis úr 4 af 20 skotum sínum, þar af 2 af 13 úr þristum, og múruðu báðum vítum sínum. Heimamenn sýndi einnig talsvert meiri baráttu og tóku meðal annars 48 fráköst, þar af 14 sóknarfráköst, á móti einungis 31 frákasti hjá gestunum.
 
Ágúst Angatýsson var maður leiksins en þessi baráttuglaði framherji Ísfirðinga setti 28 stig og tók 10 fráköst. Jason Smith kom næstur með 26 stig fyrir KFÍ. Framan af virtist hann sætta sig of mikið við langskotin, enda í stífri pressu allan leikinn, en þegar á leið fór hann að keyra aggresívt að körfunni sem skilaði sér vel í lokin.
 
Valur Sigurðsson átti klárlega sinn besta leik síðan hann gekk til liðs við Ísfirðinga en bakvörðurinn knái setti niður 17 stig í leiknum, þar af 9 stig í loka leikhlutanum. Guðmundur Jóhann Guðmundsson átti einnig fínan leik fyrir heimamenn. Hann var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn í vetur, lék skínandi vörn á Vance Cooksey framan af og setti niður 8 stig. Mirko Stefán Virijevic og Jón Hrafn Baldvinsson tóku svo báðir 10 fráköst fyrir heimamenn.
 
Hjá Snæfell var Vance Cooksey stigahæstur með 21 stig en bestur gestanna var Pálmi Freyr. Hann setti niður 17 stig í leiknum og setti niður 6 af 7 skotum sínum. Stefán Karel Torfason kom einnig sterkur til leiks með 14 stig og Sigurður Þorvaldsson bætti við 13 stigum og 9 fráköstum.
 
 
Frétt af karfan.is
Deila