Fréttir

Stærstu körfuboltabúðir frá upphafi

Körfubolti | 04.06.2018
Úr Körfuboltabúðum Vestra 2017. Þá voru öll metin slegin í aðsókn en í ár eru iðkendur umtalsvert fleiri en í fyrra og því er enn eitt metið fallið.
Úr Körfuboltabúðum Vestra 2017. Þá voru öll metin slegin í aðsókn en í ár eru iðkendur umtalsvert fleiri en í fyrra og því er enn eitt metið fallið.

Aldrei hafa fleiri iðkendur verið skráðir í Körfuboltabúðir Vestra en þær hefjast í íþróttahúsinu á Torfnesi á morgun, þriðjudag. Búðunum lýkur með veglegri kvöldvöku á laugardagskvöld og gestir halda svo heim á sunnudag. Búðirnar fagna tíu ára afmæli í ár og eru stærstu búðir sinnar tegundar á landinu.

Alls eru 180 iðkendur á aldrinum 10-16 ára skráðir til leiks í stóru búðirnar en einnig taka 20-30 yngri iðkendur þátt í svokölluðum Grunnbúðum sem fram fara samhliða stóru búðunum. Þær eru ætlaðar börnum í 1.-3. bekk. Um þriðjungur iðkenda kemur úr röðum Vestra en mikill meirihluti eru gestir úr íþróttafélögum um allt land. Með iðkendum fylgir jafnan stór hópur foreldra og forráðamanna og heilu fjölskyldurnar nota jafnvel tækifærið til að koma vestur í smá frí.

Mikil aðsókn hefur verið hin síðustu ár og seldust búðirnar í ár upp á skömmum tíma í vetur auk þess sem langir biðlistar mynduðust. Fram til þessa hafa búðirnar eingöngu verið haldnar í íþróttahúsinu á Torfnesi en til að mæta hinni miklu aðsókn verður íþróttahúsið í Bolungarvík nú nýtt undir búðirnar í fyrsta sinn. Rútuferðir verða á milli húsanna.

Iðkendum er skipt í tíu mismunandi æfingahópa eftir aldri og getu. Átján þjálfarar skiptast á að þjálfa hópana – allt eftir því hvaða tækniatriði farið er yfir hverju sinni. Yfirþjálfari búðanna annað árið í röð er Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells. Þjálfararnir koma víða að hér innanlands en einnig koma þjálfarar sérstaklega frá Spáni, Serbíu og Bandaríkjunum. Þjálfunin er í hæsta gæðaflokki og þykja búðirnar þær bestu sinnar tegundar á landinu og þótt víðar væri leitað.

Framkvæmdastjórn, sem í sitja níu manns, ber hitann og þungann af skipulagi búðanna en einnig kemur til kasta fjölda sjálfboðaliða sem sinna ólíkum verkefnum á meðan á búðunum stendur. Gestir búðanna gista flestir á heimavist Menntaskólans á Ísafirði þótt nokkuð sé um að iðkendur og fjölskyldur þeirra gisti úti í bæ. Mötuneyti skólans, sem rekið er af búðunum, mun þjóna  hátt á þriðja hundrað manns alla daga búðanna. Einnig er rekin sjoppa á Torfnesi. Sjálfboðaliðar búðanna koma flestir úr röðum foreldra Vestrabarna og má með sanni segja að þar sannist máltækið að margar hendur vinni létt verk.

Nú er bara að vona að veðrið leiki við Ísfirðinga og gesti þeirra næstu daga svo bærinn nái að skarta sínu fegursta á meðan á búðunum stendur.

Hægt er að fylgjast með fréttum og myndum úr búðunum á facebook síðu búðanna Körfuboltabúðir Vestra.

Deila