Körfubolti | 14.03.2014
Josh var ekki heill í kvöld með rifinn kálfa en gerði sitt besta
KFÍ og Stjarnan mættust í kvöld á Ísafirði í næst síðustu umferð Domino’s deildar karla í vetur.Fyrir leikinn var ljóst að KFÍ var fallið niður um deild eftir að Skallagrímur sigraði í viðureign sinni við Hauka kvöldið áður. Þar með gat KFÍ mesta lagi jafnað Borgnesinga að stigum en þeir höfðu betur í innbyrðisviðureign sinni við KFÍ í vetur og því öruggir með sæti sitt meðal þeirra bestu.
Ágætis jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en fljótlega fóru heimamenn að láta dómgæsluna fara í taugarnar á sér. Ágúst Angatýsson, leikmaður KFÍ, fékk þriðju villuna sína þegar rúmlega fimm mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta og fljótlega eftir það var dæmd tæknivilla á Birgi Örn Birgisson, þjálfara KFÍ, fyrir að mótmæla villu sem dæmd var á Mirko Stefán Virijevic. Við það fengu gestirnir fjögur víti og boltann sem þeir nýttu sér til að setja niður þrist og staðan skyndilega orðin 9-19 fyrir Stjörnuna. Eftir fyrsta leikhluta var Stjarnan svo með örugga 13 stiga forustu, 17-30. Munurinn hefði getað verið meiri en langskot Dags Kár Jónssonar yfir allan völlinn sem hafnaði ofan í var dæmt af.
Villurnar héldu að hrannast upp í öðrum leikhluta en um miðbik hans fékk Guðmundur Guðmundsson, leikmaður KFÍ, tæknivillu eftir að hafa fengið olnbogann á Marvini Valdimarssyni í andlitið og kvartað yfir að ekkert hefði verið dæmt. Stjörnumenn héldu áfram að auka muninn og staðan í hálfleik var 30-54 fyrir gestina.
Seinni hálfleikur var svo að mestu formsatriði og svo fór að lokum að Stjarnan vann öruggan 70-107 sigur.
Josh Brown var stigahæstur hjá KFÍ með 25 stig, Mirkó Stefán var með 16 stig og Ágúst Angatýsson og Valur Sigurðsson bættu við 9 stigum hvor.
Hjá Stjörnunni átti Dagur Kár Jónsson skínandi leik en hann skoraði 25 stig. Junior Hairstone kom næstur með 22 stig, Justin Shouse bætti við 18 stigum og Jón Sverrisson setti 17 stig og tók 7 fráköst.
Umsögn: SS
Deila