Fréttir

Stjórnunarstörf og sjálfboðaliðar

Körfubolti | 07.11.2012

Það er óhætt að segja frá því að íþróttir eru vinsælar hjá almenning hér á Íslandi og að sjálfsögðu er það svo hér fyrir vestan einnig. Við eignumst hetjur í leikmönnum og þjálfurum og þau fara oftar en ekki til stærri félaga og margir  til landsliðsverkefna eins og hefur sýnt sig í íþróttasögu Vestfirðinga.

 

Það er þó verkefni íþrótta að krakkar eru alin upp með gildum sem sett eru upp af foreldrum og félögum sameiginlega. Þar eru grunngildin þau að standa sig vel í skóla og virða lög og reglur. Þetta hefur sýnt sig að er að takast og það er tilgangurinn fyrir þessu starfi og þá má segja að þeir sem eru við stjórnvölinn fái sín verðlaun þegar þetta tekst vel.

 

Það er nú svo að í stjórnum félaga er fólk við vinnu fyrir ekkert nema það að gefa af sér til samfélagsins. Það eru auðvitað allir þar með metnað og vilja ná sem lengst til að vinna til verðlauna þegar lengra er komið með iðkendur sína í eldri flokkum, en fram að því er uppeldið og félagslegu gildin í fyrirrúmi.

 

Það er erfitt að starfa í stjórn félaga og það getur verið ákaflega einmannalegt áhugamál þegar illa gengur, því sama hvernig fer verður að halda félaginu gangandi og þá þarf að vinna enn meira. Þarna koma sjálboðaliðar einnig inn í dæmið, því án þeirra væri stjórnin ekki virk. Verkefnin eru svo ærin að án þeirra væri ekkert gert og engir leikir spilaðir.

 

Það sem rekur mig til að skrifa þennan pistil núna er að fá fólk til að þakka þessu fólki fyrir sitt starf. Það kostar ekkert að stoppa einhvern á íþróttavellinum eftir leik og þakka þeim fyrir sitt starf. Það er nefnilega þannig að allt þetta fólk er án nafns og fæstir sem koma á leiki þekkja þau. Það veit enginn hver er að týna upp ruslið, manna ritaraborðið, búa til auglýsingar, baka kökurnar, hella upp á kaffið, selja miðana, sinna gæslunni og vera á moppunni. Þeirra nöfn eru ekki í dagskránni né á leikskýrslunni, en án þeirra væri enginn leikur. 

 

Þetta er ekki sjálfsagt mál, þessi verk eru jafn mikilvægt og þjálfarar og leikmenn eru að gera. Þetta er partur af einni heild sem gerir það að verkum að allt virkar. En þegar leikir falla okkur í hag og fögnuðurinn er úti er þetta fólk eftir við að ganga frá og gera sig svo klár fyrir næsta leik. Og það sem meira er að þetta fólk hefur gert þetta alla þessa leiki, hvort sem leikir falla okkur í hag eða ekki og svo er bara allt í einu kominn næsti leikur og hver er þetta aftur sem er þarna að týna ruslið ?

 

Ég er hreykinn af því að þekkja þetta fólk sem skipar stjórn KFÍ, Unglingaráð og sjálboðaliða. Og ég hvet ykkur að senda þessu fólki kveðjur og þakka þeim fyrir. Ég veit hvað margt smátt gerir meira stærra og það byrjar allt með smá brosi og klappi á bakið.

 

Trúið mér að það er ótrúlegt hvað fólk er til í að gera þegar það finnur fyrir smá þakklæti.

 

-GÞ

Deila