Fréttir

Stofnfundur Vestra

Körfubolti | 19.01.2016
Undirritun stofnsamþykktar handsöluð. F.v. Ingi Björn Guðnason, f.h. KFÍ, Sigurður Jón Hreinsson, f.h. Skells, Gísli Jón Hjaltason, f.h. BÍ og Páll Janus Þórðarson f.h. Sundfélagsins Vestra. Ljósmynd: Benedikt Hermannsson.
Undirritun stofnsamþykktar handsöluð. F.v. Ingi Björn Guðnason, f.h. KFÍ, Sigurður Jón Hreinsson, f.h. Skells, Gísli Jón Hjaltason, f.h. BÍ og Páll Janus Þórðarson f.h. Sundfélagsins Vestra. Ljósmynd: Benedikt Hermannsson.
1 af 2

Á laugardaginn voru sannkölluð tímamót í íþróttalífinu á norðanverðum Vestfjörðum þegar formlegur stofnfundur hins nýja fjölgreinafélags Vestra var haldinn í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar hefur tekið virkan þátt í sameiningarferlinu síðan það hófst fyrir rúmu ári síðan ásamt Blakfélaginu Skelli, Boltafélagi Ísafjarðar, Sundfélaginu Vestra og knattspyrnudeild UMFB.

 

Sameiningarviðræðurnar voru leiddar af undirbúningshóp en í honum sátu fyrir hönd KFÍ þeir Guðni Ólafur Guðnason og Sævar Óskarsson. Á stofnfundinum var stjórn hins nýstofnaða félags kjörin en þess má geta Guðni Ólafur Guðnason var kjörinn í hana.  Hjalti Karlsson, sem jafnframt leiddi starf undirbúningsnefndarinnar, var kjörinn formaður en auk þeirra tveggja voru kosin í stjórn þau Gísli Jón Hjaltason, Sigurður Jón Hreinsson, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Sólrún Geirsdóttir og Pétur Markan. Varastjórn skipa Jón Páll Hreinsson og Anna Lind Ragnarsdóttir.

 

KFÍ mun ljúka yfirstandandi keppnistímabili undir sínum gömlu merkjum en strax næsta haust verður liðið undir merkjum Körfuknattleiksdeildar Vestra.

 

Stjórn KFÍ fagnar þessum tímamótum og hlakkar til að starfa undir nýjum merkjum í félagi við fleiri íþróttagreinar á svæðinu.

Deila