Fréttir

Strákarnir í 9. flokki áfram í bikarnum

Körfubolti | 05.12.2016
Strákarnir í 9. flokki í góðu yfirlæti hjá gestgjöfunum Atla Rúnari og Theódóru í Stykkishólmi sem tóku einstaklega vel á móti liðinu.
Strákarnir í 9. flokki í góðu yfirlæti hjá gestgjöfunum Atla Rúnari og Theódóru í Stykkishólmi sem tóku einstaklega vel á móti liðinu.

Lið Vestra í 9. flokki drengja tryggði sér áframhaldandi þátttöku í bikarkeppni KKÍ með sigri á Snæfelli á sunnudag. Keppt var í Stykkishólmi en sama dag fór þar einnig fram leikur unglingaflokka liðanna og spiluðu strákarnir einnig með þar.

Lið Vestra að þessu sinni skipuðu þeir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir, Blessed og James Parilla, Egill Fjölnisson, Friðrik Vignisson og Oddfreyr Atlason.

Vestrastrákar komu ákveðnir til leiks og sýndu mátt sinn og megin strax í fyrsta leikhluta. Egill Fjölnisson fór hamförum og skoraði 14 af 21 stigi Vestra í leikhlutanum og voru körfurnar í öllum regnbogans litum eftir frábært samspil. Eftir  fyrsta leikhluta var ljóst að verkefnið yrði erfitt fyrir heimamenn. Fleiri leikmenn Vestra tóku við sér í sókninni og voru bræðurnir Hugi og Hilmir sterkir auk þess sem Blessed  átti skínandi leik eins og svo oft áður. James og Oddfreyr skoruðu sína körfuna hvor skömmu eftir að hafa komið inn á og Friðrik reif niður ófá fráköstin auk þess að bæta við þremur stigum í seinni hálfleik. Snæfell reyndi hvað það gat en hafði ekki erindi sem erfiði að þessu sinni enda Vestrastrákar að spila ljómandi vel og héldu Snæfellingum í hæfilegri fjarlægð án þess þó að bæta mikið við forystu sína eftir því sem leið á leikinn. Lokatölur 63-40 fyrir Vestra.

Allir leikmenn Vestra komust á blað í leiknum og dreifðist skorið nokkuð bróðurlega á milli manna.

Stig: Egill 23, Hilmir 12, Blessed 11, Hugi 10, Friðrik 3, James og Oddfreyr tvö stig hvor.

Ekki er búið að draga í næstu umferð en síðustu leikirnir í þessari umferð fara fram 17. desember n. k.

Leikmenn, þjálfarar og aðstandendur liðsins vilja koma sérlegu þakklæti til Atla Rúnars Sigurþórssonar, föður Oddfreys, og Theódóru Matthíasdóttur í Stykkishólmi fyrir frábærar móttökur og einstaka gestrisni á meðan á dvölinni stóð.

 

Deila