Hvorki meira né minna en 17 Vestrastelpur kepptu á Íslandsmóti í minnibolta 11 ára sem haldið var á Flúðum um síðustu helgi. Alls voru 33 lið skráð til leiks sem kepptu í þremur riðlum, A,B og C, og tókst mótið allt með miklum ágætum og var Hrunamönnum til sóma.
Vestratelpurnar, sem eru 10 og 11 ára, kepptu í þremur liðum í C-riðli og komust elstu stelpurnar nálægt því að fara upp um riðil. Yngri stelpurnar stóðu einnig vel upp upp í hárinu á andstæðingum sínum. Þær unnu nokkra leiki en töpuðu öðrum, sumum eftir æsispennandi framlengingar.
Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Kkd Vestra, er þjálfari þessa stóra stúlknahóps en vel yfir 20 stelpur fæddar 2005-2006 æfa hjá deildinni í vetur og hafa þær sjaldan eða aldrei verið fleiri. Yngvi var að vonum ánægður með frammistöðu sinna leikmanna um helgina og segir þær eiga mikið inni fyrir veturinn.
Alls er keppt í fimm sambærilegum Íslandsmótum í þessum aldurshópi yfir veturinn en liðum nægir að mæta í þrjú þeirra til að haldast í keppni. Næsta mót fer fram í Grindavík í nóvember og er undirbúingur þeirrar ferðar þegar hafinn. Þess má geta að Kkd Vestra hefur sótt um að halda eitt slíkt mót í vor og ræðst það á nýju ári hvort af því getur orðið.
Deila