KFÍ fékk það sem þeir áttu skilið í leik gegn Grindavík í kvöld, eða nákvæmlega ekki neitt og stórt tap staðreynd. Lokatölur 93-112.
Það var ljóst frá byrjun að munur á milli þessara liða er gríðarlegur. Grindavík lætur boltann fljóta vel og fær þess vegna opin góð skot á meðan KFÍ strákarnir fóru í einn á einn bolta sem er nákvæmlega það sem lið eins og Grindavík vill. Þar með er opið fyrir hraðaupplaup að það kunna gestir okkar að nýta sér. Staðan var fljótt orðin 6-18 og við að elta gestina. Það var Mirko sem hélt okkur á floti og hann ásamt Damier gerðu það að verkum að við héldumst inn í leiknum og vorum ekki nema 22-28 undir eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta komst skynsamlega hlið okkar í gang og lékum við mjög vel náðum við að minnka muninn í fimm stig og staðan í hálfleik 40-45 og menn gengu nokkuð uppreistir til hálfleiks.
En héldu menn að það væri nóg að setja á sig búning og reyma skóna og þá gerðist allt að sjálfu sér þá er það mikill miskilningur og menn ættu að líta í eigin barm. Við fórum að keyra upp hraðann og gefa einhverjar "no look" sendingar og áður en menn gátu sagt "halló" var staðan orðin 63-78 og þeir setja 35 stig á okkur í þriðja leikhluta!
Við sýndum nokkra góða spretti í fjórða og síðasta leikhluta og Mirko og Damier með dugnaði héldu þessum leikhluta jöfnum, en yfirburðir meistaranna og leikreynsla eru einfaldlega of miklir til að reyna að hlaupa með þeim og þeir sigruðu sanngjarnt. Lokatölur eins og áður sagði 93-112.
Það er ekkert nýtt að Damier er með 30+ og við vitum það. Mirko hefur verið að mikilli siglingu í síðustu leikjum og stóð sig vel heilt yfir en mátti sig lítils gegn grimmum Grindjánum í frákastabaráttunni. Ty átti nokkra fína spretti, en var að reyna of mikið sjálfur og var með lélega nýtingu inn í teig, en var fínn í þriggja stiga og vítnýtingu. En það vilja menn sjá, því á meðan gerir hann ekkert undir körfunni. Jón Hrafn og Kristján Pétur voru týndir og geta mikið mun betur og vonandi gyrða þeir sig í brók. Hlynur, Gummi og Stebbi eru ungir og eiga mikið eftir að sýna, en þetta var leikur sem ekki var hægt að ætlast til of mikils af þeim á stuttum tíma.
Þessi leikur er búinn og það eina sem hægt er að gera er að hugsa um hann í kvöld og læra af þessu fyrir síðustu tvo leikina gegn Stjörnunni og KR.
Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það er marg sannað.
Stig KFÍ
Damier 37 stig, 9 fráköst, 6 stoðir.
Mirko 28 stig, 7 fráköst.
Ty 14 stig, 11 fráköst.
Hlynur 5 stig, 2 fráköst.
Kristján 5 stig, 6 fráköst.
Jón Hrafn 2 stig, 5 fráköst.
Gummi 2 stig, 1 frákast.
Áfram KFÍ
Deila