Silfurliðið úr úrvalsdeildinni í fyrra, Þór frá Þorlákshöfn, átti ekki í erfiðleikum með KFÍ í kvöld og fóru heim með öruggan 84-128 sigur í farteskinu.
Þórsarar byrjuðu mun betur í leiknum og voru komnir með tíu stiga forustu, 4-14, eftir fjóra og hálfa mínútu. Mest náðu þeir ellefu stiga forustu í fyrsta leikhluta, 19-30, en KFÍ lagaði þó stöðuna fyrir lok hans með tveimur þriggja stiga körfum frá Momcilo Latinovic og Kristjáni Pétri Andréssyni.
KFÍ hélt áfram að höggva á forustuna í byrjun annars leikhluta og náðu muninum minnst niður í 4 stig, 31-35, á elleftu mínútu leiksins. Eftir það skildu leiðir og kaffærðu Þórsarar heimamenn með 33-9 áhlaupi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.
Í seinni hálfleik tók ekkert betra við, Þórsarar héldu áfram að hitta eins og enginn væri morgundagurinn á meðan andleysi heimamanna var algjört. 44 stiga rasskelling var því niðurstaða kvöldsins.
Í liði KFÍ voru Kristján Pétur og Mirkó Stefán þeir einu með lífsmarki. Kristján endaði með 24 stig en Mirkó setti 15 stig og tók 10 fráköst. Þess má einnig geta að tveir ungir leikmenn spiluðu sína fyrstu leiki í meistaraflokki, þeir Hákon Ari Halldórsson og Haukur Hreinsson. Hákon komst ekki á blað að þessu sinni en Haukur, sem varð 15 ára á árinu, setti niður bæði skot sín í leiknum og skoraði 4 stig.
Í liði Þór voru allir sjóðandi heitir, einnig þjálfarinn sem uppskar þó einungis tæknivillu fyrir sinn hita. Allir leikmenn Þórs skoruðu í leiknum, þar af voru sjö með 11+ stig. Samtals hittu Þórsarar úr 68% tveggja stiga skota sinna og 55% þriggja stiga skota sinna, og þurftu starfsmenn íþróttahúsins að skipta um netin í körfunum að leik loknum þar sem þau þoldu ekki álagið.
Deila