Egill Fjölnisson og bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir hafa verið valdir í 35 manna æfingahóp U16 ára landsliðs drengja í körfuknattleik, en hópurinn var kynntur í dag. Þremenningarnir leika í 10. flokki á komandi leiktíð en þeir hömpuðu bikarmeistaratitli ásamt félögum sínum í 9. flokki síðasta vetur og unnu sig einnig upp í A-riðil Íslandsmótsins í vor.
U16 ára landslið drengja tekur þátt í tveimur verkefnum næsta sumar, hið fyrra er Norðurlandamót í Finnlandi í júní og hið síðara Evrópukeppni sem fram fer í ágúst. Hópurinn kemur til æfinga nú í ágúst en æfir svo ekki að nýju fyrr en í desember. Síðla vetrar verður svo 12 manna landslið valið.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, er landsliðsþjálfari U16 drengja en hann stýrði einnig U15 landsliðinu sem keppti á Copenhagen Invitational í júní í sumar. Þar áttu bæði Hilmir og Hugi sæti í 18 manna hópi. Aðstoðarþjálfari Ágústs er Snorri Örn Arnaldsson, þjálfari hjá Stjörnunni.
Það er jafnan mikil hvatning fyrir ungt íþróttafólk að vera valið í landsliðsæfingahópa og óskar félagið drengjunum innilega til hamingju með árangurinn og hvetur þá til dáða. Það verður spennandi að fylgjast með framgangi þeirra í vetur.
Hér má sjá 35 manna æfingahópinn sem kynntur var af KKÍ í dag.
Deila