Vestri og ÍA mættust á Jakanum í gærkvöldi í lokaleik liðanna í 1. deild karla í körfubolta fyrir jólafrí. Gestirnir stóðu í heimamönnum í fyrsta fjórðungi en snemma í öðrum fjórðungi stungu Vestramenn af enduðu á að rjúfa hundrað stiga múrinn, lokatölur 103-63.
Skagamenn mættu vængbrotnir til leiks því í lið þeirra vantaði lykilleikmenn. Vestri gat hinsvegar telft fram fullskipuðu liði en það hefur ekki verið mögulegt mjög lengi vegna meiðsla. Með þessum þriðja sigri í röð hefur Vestri styrkt stöðu sína í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Þrjú lið eru nú jöfn að stigum í fimmta til sjöunda sæti en auk Vestra eru það Hamar og FSu. Það er kærkomið að fara í jólafrí með sigur í farteskinu sérstaklega þar sem langt er í næsta leik sem er heimaleikur gegn Ármenningum.
Yima Chia-Kur og Nebojsa Knezevic voru bestu menn Vestra og atkvæðamestur gestanna var Derek Shouse. Yima skoraði 25 stig og tók 11 fráköst á þeim tæpu 20 mínútum sem hann spilaði. Nebojsa skoraði 24 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Magnús Breki átti einnig góðan leik og sökkti m.a. þremur þristum í röð í þriðja leikhluta. Magnús skoraði 16 stig og tók 6 fráköst. Hinrik skoraði 12 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 3 fráköst. Aðrir leikmenn Vestra voru með minna en flestir þeirra komust á blað í leiknum. Það var sérstaklega gaman að sjá ungu leikmennina Rúnar Inga Guðmundsson og Daníel Wale Adeleye koma inn á undir lok leiksins en þetta var fyrsti meistaraflokksleikur þess síðarnefnda.
Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ. En hér að neðan má einnig sjá viðtal sem Jakinn-TV tók við Yngva Gunnlaugsson að leik loknum.
Deila