Fréttir

Tíu frá Vestra í æfingahópum yngri landsliða KKÍ

Körfubolti | 03.12.2017
Hópurinn sem á sæti í æfingahópum yngri landsliða frá Vestra. Myndin var tekin eftir sigur meistaraflokks á Gnúpverjum á útivelli en báðir 10. flokkar Vestra voru einng að spila á útivelli um helgina. Frá vinstri: Hilmir Hallgrímsson, Hjördís Harðardóttir, Egill Fjölnisson, Rakel Adeleye, Hugi Hallgrímsson, Dagbjört Jóhannesdóttir, Björn Ásgeir Ásgeirsson, Helena Haraldsdóttir, Friðrik Vignisson og Katla Sæmundsdóttir.
Hópurinn sem á sæti í æfingahópum yngri landsliða frá Vestra. Myndin var tekin eftir sigur meistaraflokks á Gnúpverjum á útivelli en báðir 10. flokkar Vestra voru einng að spila á útivelli um helgina. Frá vinstri: Hilmir Hallgrímsson, Hjördís Harðardóttir, Egill Fjölnisson, Rakel Adeleye, Hugi Hallgrímsson, Dagbjört Jóhannesdóttir, Björn Ásgeir Ásgeirsson, Helena Haraldsdóttir, Friðrik Vignisson og Katla Sæmundsdóttir.

Síðastliðinn föstudag voru birtir listar yfir æfingahópa Körfuknattleikssambands Íslands  fyrir yngri landslið. Vestri á óvenju stóran og glæsilegan hóp þar innanborðs en alls eru 10 krakkar frá félaginu í æfingahópunum. Þessi miklu fjöldi ber vitni um það öfluga barna- og unglingastarf sem fram hefur farið í deildinni undanfarin ár. Þetta er einnig í takti við þann mikla fjölda krakka sem leggur hart að sér í hverri viku við að bæta sig í íþróttinni undir öruggri handleiðslu Yngva Gunnlaugssonar yfirþjálfara og annarra þjálfara deildarinnar.

Æfingahóparnir koma saman rétt fyrir jól og á milli jóla og nýaárs á suðvestsurhorninu og æfa undir handleiðslu landsliðsþjálfara hvers hóps.

Í U-15 æfingahópi stúlkna eru þrjár Vestra stelpur, þær Helena Haraldsdóttir, Katla María Magdalena Sæmundsdóttir og Rakel Damilola Adeleye. Þessar þrjár stúlkur eru í 9. flokki en fögnuðu áfanganum með góðum sigri í bikarkeppni KKÍ á sunnudag ásamt stöllum sínum í 10. flokki og tryggðu liðinu sæti í undanúrslitum.

Í U-15 æfingahópi drengja er Strandamaðurinn Friðrik Heiðar Vignisson sem hefur æft og spilað með Vestra undanfarin ár ásamt því að æfa með Geislanum á Hólmavík. Þess má geta að Friðrik hefur að mestu spilað ár upp fyrir sig og varð m.a. bikarmeistari með 9. flokki drengja hjá Vestra í vor. Um helgina lék hann með 10. flokki í bikarkeppni  KKÍ en sameiginlegt lið Vestra og Skallgríms tryggði sér sæti í undanúrslitum keppninnar á sunnudag.

Í U-16 æfingahópi stúlkna eiga þær Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir og Hjördís Harðardóttir sæti. Þær stöllur fögnuðu árangrinum á sunnudag ásamt félögum sínum í 10. flokki með því að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar með sigri á Breiðablik.

Í U-16 æfinghópi drengja eiga sæti þeir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir ásamt félaga sínum Agli Fjölnissyni en Hilmir og Hugi tóku þátt í verkefnum U-15 landsliðsins í sumar. Líkt og aðrir iðkendur voru þeir félagar önnum kafnir um helgina og tryggðu sér sæti í undanúrslitum bikarsins 10. flokki með sigri á KR en Vestri er ríkjandi bikarmeistarar í þessum aldursflokki.

Að lokum á Björn Ásgeir Ásgeirsson sæti í U-18 æfingahópi drengja. Björn Ásgeir fagnaði þessum áfanga með frábærum leik á föstudag með meistaraflokki karla í 1. deildinni þar sem hann skoraði 23 stig. Björn Ásgeir kom til Vestra frá Hamri í sumar en hann var í U-16 landsliði Íslands árið 2016.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra óskar þessum krökkum öllum innilega til hamingju með árangurinn og góðs gengis á æfingunum sem fram fara í lok mánaðarins.

Deila