Síðastliðnu helgi, 4. og 5. febrúar, gerði Vestri góða ferð í Þorlákshöfn þar sem keppt var í 10. flokki drengja. Skörð voru höggvin í lið Vestra vegna veikinda og því aðeins 6 leikmenn í liðinu, aðrir þurftu að bíta í það súra epli að vera heima. Auk Vestra tóku lið Snæfells, Tindastóls og Þórs úr Þorlákshöfn þátt í mótinu. Vestramenn sýndu styrk sinn og unnu riðilinn og eru þar með komnir upp í B-riðil.
Lið Vestra skipuðu: Daníel Wale Adeleye, Þorleifur Ingólfsson, Stefán Ragnarsson, Blessed Parilla og Hilmir og Hugi Hallgrímssynir. Þjálfari er Yngvi Páll Gunnlaugsson en honum til aðstoðar voru Magnús Breki Þórðarson og Adam Smári Ólafsson.
Fyrsti leikur drengjanna var gegn enn fámennara liði Tindastóls. Einungis 5 leikmenn mynduðu lið Stólanna en þeir sýndu ótrúlegan dug og úthald allt mótið og eiga hrós skilið fyrir hetjulega framgöngu í sínum leikjum.
Rólegt yfirbragð sveif yfir vötnunum í upphafi leiksins, en alls fylgdu 4 foreldrar sínum liðum og mynduðu áhangendahópinn í stúkunni. Þetta rólega yfirbragð einkenndi spilamennsku liðanna í fyrsta fjórðungi og greinilegt að löng rútuferðin sat í báðum liðum. Þó tóku Norðlendingar frumkvæðið og leiddu 9-5 eftir fyrsta leikhluta þrátt fyrir álitlegar sóknir Vestra.
Í stöðunni 11-5 settu Vestrapiltar í fluggír. Vörnin þéttist og bræðurnir Hilmir og Hugi skoruðu næstu 15 stig leiksins. Breyttu stöðunni í 20-11 áður en Tindastóll svaraði með tveimur körfum. Daníel Wale lokaði leikhlutanum með tveimur stigum, 22-15 eftir 1. leikhluta fyrir Vestra.
Munurinn á liðunum hélst nær óbreyttur það sem eftir lifði leiks. Vestra tókst hvorki að stinga Tindastól af né þeim að minnka mun Vestra að einhverju ráði. Vestri leiddi eftir þrjá fjórðunga 34-27 og uppskar 47-41 sigur.
Stig Vestra: Daníel 15, Hugi 14, Hilmir 11 og Blessed 5.
Næsti leikur var gegn heimamönnum í Þór sem höfðu unnið fyrri leik sinn örugglega gegn Snæfelli.
Þórsarar byrjuðu af krafti og komust í 7-0 áður en Vestri svaraði með tveimur tveggja stiga körfum. Eftir það komust heimamenn mest 9 stigum yfir, 16-7, en þá rönkuðu Vestrastrákar við sér og höfðu minnkað muninn niður í tvö stig þegar 1. leikhluti rann sitt skeið, 19-17.
Blessed hóf annan leikhluta með góðri þriggja stiga körfu sem kom Vestra yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Vestri komst mest 6 stigum yfir áður en Þórsarar tóku á sig rögg og héldu liðin til hálfleiks með skiptan hlut 29-29.
Vestri tók frumkvæðið í þriðja leikhluta og leiddi eftir hann 41-37 þar sem stigin skiptust vel á milli manna. Aftur tóku heimamenn völdin í upphafi fjórða leikhluta og náðu forystu 46-44. Hilmir minnkaði muninn í 46-45 með einu víti en þáttaskil leiksins urðu þegar Hugi setti rándýran þrist í næstu sókn um það leyti sem skotklukkan rann út og breytti stöðunni í 48-46 fyrir Vestra. Eftir það varð sóknaleikur Þórs einhæfur og vörn Vestra átti ekki í miklum vandræðum með að stöðva heimamenn. Hilmir skoraði 8 síðustu stig Vestra, þar af 6 af vítalínunni, og sigur staðreynd í frábærum körfuboltaleik tveggja góðra liða, 56-48. Með sigrinum gegn Þór, og ótrúlegum sigri Tindastóls gegn lánlausum Snæfellingum, var ljóst að Vestri hafði tryggt sér sigur í riðlinum vegna hagstæðra innbyrðis viðureigna efstu liða.
Stig Vestra: Hilmir 20, Hugi 13, Blessed 10, Stefán 4, Daníel 2, Þorleifur 2.
Í stað þess að baða sig í sigurljóma voru Vestradrengir ákveðnir í að klára mótið með stæl og mættu vígreyfir gegn Snæfelli sem voru lurkum lamdir eftir laugardaginn. Magnús Breki tók við stjórnartaumunum af Yngva og honum til aðstoðar var Adam Smári. Snæfellingar hengu í Vestra í 1. leikhluta, en staðan eftir hann var 12-11 fyrir Vestra.
Í öðrum leikhluta skildu leiðir og Vestri jók muninn. Allir leikmenn liðsins komust á blað í leikhlutanum og var staðan 29-16 að honum loknum. Leikmenn Snæfells komu sprækir inn í seinni hálfleik en þrátt fyrir það þá héldu Vestrastrákar uppteknum hætti og leiddu 40-25 fyrir lokaleikhlutann. Vestri sigldi þægilegum sigri í höfn en fyrir leikinn var ljóst að hlutskipti Snæfells var að falla í D-riðil en Vestra að feta upp i B-riðil og verður þar meðal næstbestu liða landsins þegar flautað verður til leiks í næsta móti sem fram fer 8. og 9. apríl.
Stig Vestra: Hilmir 17, Daníel 12, Blessed 12, Hugi 8, Stefán 2, Þorleifur 2.
Þrátt fyrir áföll í aðdraganda mótsins vegna veikinda sýndu þessir drengir mátt sinn og megin með frábæran liðsanda að vopni. Hæfileikarnir eru svo sannarlega til staðar í þessu liði til þess að ná lengra og því verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu hjá þessum flokki. Það er álit fréttaritara að þetta lið á fullt erindi í A-riðil og ætti ekki að koma á óvart ef svo yrði.
Deila