Um helgina fóru fram tveir leikir á milli Vestra og Sindra frá Höfn í Hornafirði á Jakanum. Vestri mætti Sindra frá Höfn í Hornafirði í tveimur leikjum um helgina. Vestri vann báða leikina sannfærandi. Þann fyrri 97-70 og þann síðari 96-74. Þar sem þreföld umferð er leikinn í 1. deildinni geta lið átt tvo heimaleiki og einn útileik gegn sumum liðum deildarinnar. Til að koma til móts við ferðakostnað sammælast lið stundum um það að leika báða heimaleikina í einni ferð og varð það raunin á milli Sindra og Vestra enda þekkjum við vel hve hár ferðakostnaður er íþyngjandi.
Laugardagur
Fyrri leikurinn fór fram á laugardag og átti að hefjast kl. 14:00 en vegna tafa á flugi tókst ekki að hefja leik fyrr en 14:20. Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en það voru gestirnir sem skoruðu fyrstu stigin eftir rúma mínútu. Vestri jafnaði strax metinn og reyndist þetta í eina skipti sem gestirnir leiddu í leiknum.
Mestur varð munurinn 26 stig Vestra í vil en var oftast í kringum 10-15 stigin. Þótt Sindramenn hafi oftast nær ekki verið langt undan var Vestri samt alltaf með full tök á leiknum. Gott áhlaup í öðrum leikhluta skilaði þægilegri forystu í hálfleik 52-35. Sindramenn komu samt einbeittir til leiks í öðrum leikhluta og unnu hann með tveimur stigum 25-27 og staðan því 77-62 eftir þriðja leikhluta. Lengra komust gestirnir þó ekki og lokatölur voru 97-70 fyrir Vestra.
Nebojsa og Nemanja Knezevic áttu báðir frábæran leik. Nebojsa var með ótrúlega töllfræðilínu í hálfeik, 11 stig, 9 fráköst og hvorki meira né minna en 12 stoðsendingar. Hann var sem sagt einu frákasti frá því að vera með þrennu í hálfleik. Nebó endaði leikinn með glæsilegri þrennu 15 stig, 12 fráköst og 15 stoðsendingar. Nemanja átti enn eina tröllatvennuna skoraði 31 stig og tók 21 frákast auk þess að fiska 10 villur á andstæðinginn. Andre Huges skilaði sínu með góðri tvennu 14 stig og 15 fráköst. Hugi Hallgrímsson átti einnig góðan leik en þessi 16 ára leikmaður skoraði 15 stig og tók 4 ráköst. Ingimar Aron skoraði 10 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Hilmir skoraði 4 stig, Helgi og Guðmundur Auðun 3 stig og Gunnlaugur 2. Hjá gestunum voru þeir Kenneth Gluellen og Barrington Stevens atkvæðamestir, Kenneth með 26 stig og Barrington með 25.
Sunnudagur
Sunnudagsleikurinn þróaðist með svipuðu móti og sá fyrri þótt fyrstu stig leiksins að þessu sinni hafi verið heimamanna með fallegu sniðskoti Nemanja þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar af leiknum. Í raun má segja að um endurtekið efni hafi verið að ræða. Vestri hafði tök á leiknum allan tímann og sigurinn aldrei í hættu þótt munurinn yrði aldrei ískyggilega mikill. Lokatölur 96-74.
Af tólf leikmönnum á skýrslu tóku ellefu þátt í leiknum og komust allir á blað. Nemanja og Andre voru stigahæstir með 23 stig. Nemanja tók auk þess 14 fráköst en Andrei tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Nebojsa skoraði 13 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Ingimar Aron var með 9 stig, Helgi með 8 stig, Hugi með 6 stig þar af tvö stig með glæsilegri troðslu eftir gullsendingu frá Nebojsa. Gunnlaugur skoraði 4 stig og fiskaði 5 ruðninga, Hilmir, Guðmundur Auðun og Rúnar skoruðu 3 stig og Egill skoraði 1 stig.
Deila