Fyrsti leikur Vestra í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway deildinni, var gegn sterku liði Keflavíkur, í kvöld á heimavelli í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði. Leikurinn var frábær skemmtun, tvíframlengudur en endaði með naumu tapi 99-101.
Ríflega 250 áhorfendur voru mættir til að styðja við bakið á Vestra. Það var því frábær stemmning í húsinu og spenna í loftinu að mæta svo sterku liði í fyrstu umferð. Vestra er spáð falli í úrvalsdeildinni á meðan Keflavík er eitt þeirra liða sem er spáð að verði í baráttu aftur um Íslandsmeistaratitilinn.
Fyrstu körfu leiksins skoraði Vestra leikmaðurinn Alejandro og var leikhlutinn tiltölulega jafn. Keflvíkingurinn Valur Orri var í stuði og sallaði niður þriggja stiga körfum í fyrr hálfleik, var of oft með opið skot sem hann setti niður. Ken-Jah og Nemanja voru stöðugir í fjórðungnum og voru drjúgir sóknarlega. Nemanja og Julio nokkuð sterkir varnarlega og var hálfleikurinn nokkuð jafn en Keflavík þó alltaf skrefinu á undan og leiddu þeir í hálfleik með 12 stigum. Vestramenn komu ákveðnir inn í seinni hálfleik og unnu upp muninn. Góð varnarvinna og áræðni hjá Ken-Jah, Nemanja, Alejandro og Hilmi skilaði sér og að liðnum venjulegum leiktíma var jafnt og því gripið til framlengingar. Julio sem var búinn að vera sterkur varnarlega og í fráköstum var kominn með fimm villur og spilaði því ekki meir. Í framlengingunni voru liðin að skiptast á körfum og var hnífjafnt, undir lok framlengingarinnar virtust Vestra menn vera að landa sigri og munaði 4 stigum á liðunum þegar rúmlega mínúta var eftir. Keflvíkingar voru þó áræðnir og náðu að jafna og knýja fram aðra framlengingu. Vestri var skrefinu á undan og með forystu framan af í fjórðungnum en tvær mikilvægar þriggja stiga körfur Keflvíkinga gerðu gæfumuninn undir lok leiks og náðu Keflvíkingar að landa naumum tveggja stig sigri í lokin.
Bandaríski leikmaður Vestra Ken Jah og Nemanja voru bestu menn Vestra, Alejandro var líka góður en heilt yfir var liðsheildin góð og leikurinn frábær skemmtun sem setur góðan tón fyrir veturinn. Pétur þjálfari er að gera góða hluti með liðið eftir stutt undirbúningstímabil og ljóst að liðið á eftir að slípast enn betur saman. Næsti leikur liðsins er gegn núverandi Íslandsmeisturum Þórs í Þorlákshöfn þann 14. október og því sannkölluð eldskírn í fyrstu leikjum liðsins. Þann 22. október verður svo næsti heimaleikur á móti Þór Akureyri.
Deila